- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Þjálfari stendur og fellur með árangri

Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari karla fylgist einbeittur með. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Nokkuð hefur verið rætt og ritað síðustu daga um framtíð Guðmundar Þórðar Guðmundssonar á stóli landsliðsþjálfara karla í handknattleik. Sitt hefur hverjum sýnst hvort HSÍ eigi að bjóða honum nýjan samning þegar núverandi samningur rennur út um mitt þetta ár.
  • Vafalaust hefur eitthvað farið framhjá mér í umræðunni upp á síðkastið um framtíð Guðmundar Þórðar á stóli landsliðsþjálfara. Ég hef ekki heyrt eða séð sérstök rök fyrir að þörf sé á að skipta um mann í brúnni.
  • Var árangurinn á EM sá að ástæða sé til að skipta út þjálfaranum? Var spilamennska landsliðsins á EM slík að tilefni sé til að skipta um þjálfara? Er þjálfarinn að þrotum kominn með lausnir og hugmyndir? Hefur þjálfarinn misst trúverðugleika leikmanna? Hefur hann misst klefann, eins og einhverntímann var sagt við litlar vinsældir? Eru leikmenn hættir að hlýða þjálfaranum?
  • Mitt svar við þessum spurningum er nei.
  • Fyrir ári síðan var e.t.v. rétt að velta því fyrir sér hvort skipta ætti um þjálfara. Árangurinn á HM var slakur auk þess sem þjálfarinn fór þá langt yfir strikið í ofsafengnum viðbrögðum við gagnrýni sem hann og leikmenn fengu úr sjónvarpssal. Þar féll þrautreyndur þjálfari í pytt sem gerði hvorki honum né öðrum gagn. Óánægju sinni hefði jafn sjóaður þjálfari átt að koma frá sér á yfirvegaðri hátt að keppni lokinni eða hreinlega að láta sem vind um eyru þjóta.
  • Helst hefur mér heyrst að menn vilji bara skipta um þjálfara nú til þess eins að skipta um þjálfara. Tími sé kominn á breytingar eftir fjögur ár, svona eins og mála vegg í öðrum lit af því að sá sem er fyrir er ekki lengur í tísku.
  • Er þörf á breytingum vegna þess að einhverjir okkar sem fylgjast með af hliðarlínunni erum orðnir leiðir á manninum sem þjálfar landsliðið? Það geta aldrei orðið rök fyrir að skipta um landsliðsþjálfara.
  • Hlutverk þjálfarans er m.a. að móta gott handknattleikslið sem getur náð árangri og um leið skemmt þjóðinni, hrifið hana með sér. Þjálfari stendur og fellur með árangri. Afar góður árangur náðist á EM í síðasta mánuði og enn betri var innan seilingar.
  • Þegar öllu er á botninn hvolt þá er það í höndum stjórnar HSÍ og þjálfarans sjálfs að taka ákvörðun um framhald á samstarfi. Þeir verða að meta stöðuna, velta fyrir sér kostum og göllum.
  • Árangur landsliðsins og þjálfarans á Evrópumótinu kallar alltént ekki á að skipt verði um mann í brúnni. Það skiptir miklu máli.

    Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -