Um þessar mundir mega handknattleikslið á höfuðborgarsvæðinu ekki æfa saman vegna hertra sóttvarnareglna. Hinsvegar kemur það ekki í veg fyrir að leikmenn liðanna megi æfa einir. Handbolti.is sendi nokkrum leikmönnum þrjár léttar spurningar í ljósi stöðunnar. Lárus Helgi Ólafsson, markvörður Fram var ekkert að tvínóna heldur svaraði um hæl.
Hvernig heldur þú þér í leikformi?
Ég reyni að æfa einu sinni á dag og þar sem ég er í barneignarorlofi reyni ég að fara í góða göngutúra á morgnana.
Æfir þú eftir prógrammi frá þjálfara þíns liðs?
Við erum með prógramm sem ég reyni að fylgja eftir en ég aðlaga það oft þannig að það henti mér betur og ég hafi gaman af æfingunum. Mér finnst það skipta miklu máli á þessum tímum.
Æfir þú einu sinni á dag eða oftar?
Ég reyni að taka eina almennilega æfingu á dag, annað hvort hlaup eða styrk með eigin þyngd ásamt því að teygja vel.