- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum vonandi hlegið að þessu eftir tíu til fimmtán ár

Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, og leikmenn hans í Safamýri í gærkvöld. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Arnar Daði Arnarsson þjálfari karlaliðs Gróttu segir það reyna mjög á leikmenn og þjálfara að halda sínu striki við þær aðstæður sem búið er við á meðan covid faraldurinn gengur yfir. Hvað eftir annað sé lagður undirbúningur í leiki sem síðan er frestað. Ofan á annað séu leikmenn frá æfingum og keppni vegna smita eða sóttkvíar.


„Þetta er þriðja tímabilið mitt sem þjálfari í meistaraflokki. Þau hafa öll verið í þessu covidrugli. Vonandi getur maður hlegið að þessu eftir tíu til fimmtán ár,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is í gærkvöld. Víst er að honum var þá ekki hlátur í huga.


Tveimur leikjum Gróttu sem fram áttu að fara í desember var frestað. Á mánudaginn í síðustu viku stóð til að Grótta léki sinn fyrsta leik eftir nærri tveggja mánaða hlé. Vegna covid var viðureigninni við HK frestað á nýjan leik. Þar af leiðandi má segja að 12 daga undirbúningur hafi verið fyrir leikinn við Fram sem loksins gat farið fram í gærkvöld.


„Leikmenn voru farnir að vingast við Framara í huganum, eða því sem næst, svo mikið var hugsað um leikinn í þeim langa aðdraganda sem að honum var,“ sagði Arnar Daði.


„Á þessum tólf dögum urðum við fyrir því áfalli að Gunnar Dan Hlynsson var kallaður til baka úr láni frá Haukum. Þá þurftum við að stokka spilin upp þar sem Gunnar hefur leikið veigamikið hlutverk í liðinu. Okkur tókst að fá Andra Finnsson að láni frá Val. Hann stóð sig vel í kvöld.

Til viðbótar höfum við misst leikmenn í einangrun og sóttkví sem varð til þess að við vorum ekki alveg vissir hvaða leikmenn yrðu með í kvöld og í hvaða standi þeir væru þá,“ sagði Arnar Daði sem óttast að ekkert verði að sinni úr leik Gróttu og Aftureldingar sem fram á að fara í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi á laugardaginn.

„Ég heyrði það í dag að mögulega verður ekki leikur hjá okkur á laugardaginn. Ég veit sannarlega ekki hvað ég á að segja við strákana í þessu ástandi og það ofan í tapið í kvöld,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari karlaliðs Gróttu.

Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -