„Ég er með samning fram í júní og veit ekki hvað HSÍ vill gera. Þar af leiðandi er erfitt að tjá sig eitthvað meira um það. Ég verð bara að sjá til hvort áhugi er hjá þeim eða ekki,“ svaraði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við Bjarna Helgason í Dagmálum á mbl.is., spurður um framtíð sína í stól landsliðsþjálfara. Samningur Guðmundar við HSÍ rennur út í júní.
„Ég þarf líka að skoða minn hug í tengslum við það og hvað þeir sjá fyrir sér. Hvernig þeir sjá þetta lið og mín störf áður en ég get tjáð mig of mikið,“ segir Guðmundur ennfremur. Skilja má á Guðmundi að hann hafi áhuga á að halda áfram enda segir hann fyrr í viðtalinu að liðið sé að verða reiðubúið eftir fjögurra ára mótunartíma.
Réttar forsendur
„Ef réttar forsendur eru fyrir hendi. Það er svo erfitt að tjá sig um eitthvað sem er ekki orðið og eins og staðan er í dag stendur mér ekki til boða. Það er annarra að tjá sig um það,“ segir Guðmundur sem telur framtíð núverandi landsliðs vera bjarta komi ekki til mikilla áfalla í leikmannahópnum.
Allir möguleikar í stöðunni
„Mér finnst allir möguleikar vera stöðunni. Við trúum á þetta lið og þann anda sem ríkir innan þess. Í því er ofsalega stórt og mikið hjarta. Það hefur verið gaman að starfa með því,“ segir Guðmundur Þórður í samtali við Dagmál á mbl.is sem er opið öllum. Þar kemur m.a. fram að Guðmundur er nýlega laus úr einangrun eftir að hafa greinst með covid eftir komuna til landsins frá Ungverjalandi.
Viðtal Bjarna við Guðmund í Dagmálum er afar ítarlegt og í því eru margir afar áhugverð atriði. Guðmundur fer yfir ferlillinn, m.a. fyrri tímabil sín með landsliðið og ekki síst nýafstaðið Evrópumót sem fram fór í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar en á því hafnaði íslenska landsliðið í sjötta sæti. Hlekk á viðtalið má nálgast hér.
Guðmundur Þórður tók við þjálfun íslenska landsliðsins snemma árs 2018 og skrifaði þá undir samning til árins 2021. Samningurinn var framlengdur til ársins 2022 í ágúst 2020.
Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, sagði í samtali við handbolta.is á dögunum að fljótlega verði farið í að ræða við Guðmund Þórð þjálfara.