Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson er orðinn einn lykilmanna IFK Kristianstad í Svíþjóð eftir aðeins tvö keppnistímabil með liðinu. Hann var valinn besti leikmaður Kristianstad á síðasta keppnistímabili en valið var kynnt á ársfundi félagsins á dögunum.
Teitur Örn, sem er einn marga framúrskarandi handknattleiksmanna úr akademíunni á Selfossi, varð næst markahæsti leikmaður IFK Kristianstad á tímabilinu og stoðsendingakóngur. Hann skoraði 139 mörk, aðeins sjö færri en sá markakahæsti. Þessu til viðbótar átti hann 68 stoðsendingar sem þýðir að hann var einn af aðsópsmestu leikmönnum sænsku úrvalsdeildarinnar á því sviði. Teitur Örn er ekki aðeins orðinn einn skæðasti sóknarmaður Kristianstad-liðsins, heldur er hann einnig sívaxandi varnarmaður og hlutverk hans orðið veigamikið.
Teitur Örn er nú að hefja sitt þriðja keppnistímabil með IFK Kristiandstad. Hann varð markakóngur Olís-deildarinnar vorið 2018 áður en hann hélt í víking til Svíþjóðar. Teitur Örn á að baki 17 A-landsleiki og var m.a. í íslenska landsliðinu á HM 2019 sem haldið var í Þýskalandi og í Danmörku.
Ólafur Andrés Guðmundsson hefur verið í herbúðum IFK Kristianstad árum saman við góðan orðstír og gegnir m.a. hlutverki þjálfara.