- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vinnur markvisst að því að verða betri með hverjum degi

Sveinn Jóhannsson leikmaður SönderjyskE gengur til liðs við Erlangen í sumar. Mynd/SönderkyskE
- Auglýsing -

„Ég er kominn skrefinu lengra. Úrvalsdeildin hér í Danmörku er sterkari en sú sem er heima. Einstaklingarnir eru betri og hraðinn meiri í leiknum,“ sagði handknattleiksmaðurinn Sveinn Jóhannsson þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans á dögunum. Sveinn er á sínu öðru keppnistímabili með úrvalsdeildarliðinu SönderjyskE á suður Jótlandi. Hann skrifaði undir þriggja ára samning félagið vorið 2019.


„Það hefur skipt miklu máli fyrir mig sem handboltamann að stíga þetta skref og takast á við handboltann hér í Danmörku. Ég hvet alla til að gera slíkt hið sama eigi þeir þess kost. Umhverfið er allt annað en heima,“ sagði Sveinn sem er 21 árs gamall Fjölnismaður í húð og hár að eigin sögn þótt hann hafi stigið hliðarskref og leikið með ÍR í eitt keppnistímabil áður en hann flutti til Danmerkur sumarið 2019.

Í harðri samkeppni


Sveinn einbeitir sér að handknattleik í Danmörku. „Það hentar mér fullkomlega að geta einbeitt mér að íþróttinni og æft mikið,“ sagði Sveinn sem vinnur markvisst að því að verða sterkari línumaður þar sem hann er í harðri samkeppni við tvo liðsfélaga sína sem eru reyndir og öflugir. Síðan Sveinn kom til SönderjyskE hefur hans hlutverk aðallega verið í vörninni.

Sveinn kominn í marktækifæri í leik SönderjyskE og Skjern í einum af fyrstu umferðunum í haust. Mynd/SönderjyskE

„Það tekur sinn tíma að bæta sig sem sóknarmaður. Ég legg mig fram á hverri æfingu og sé framfarirnar koma jafnt og þétt.
Ég tel mig hafa staðið mig vel í því hlutverki sem ég hef fengið hjá liðinu. Stefnan er hinsvegar sú að vera öflugur leikmaður á báðum endum vallarins. Að því vinn ég markvisst,“ sagði Sveinn. Hans aðalhlutverk í vörnini er að leika í stöðu þrists, sem sagt fyrir miðri vörn. Einnig á Sveinn það til að leysa af í bakvarðastöðunum ef menn þurfa að hvíla sig í vörn og sókn í senn.

Ágætis byrjun hjá okkur


SönderjyskE fór vel af stað í haust en aðeins hefur dregið af liðinu upp á síðkastið. Það situr í áttunda sæti úrvalsdeildar af 14 liðum með níu stig að loknum átta leikjum. „Mér finnst byrjunin hafa verið góð hjá okkur. Við mættum snemma sterkum liðum og unnum bæði Skjern og Holstebro sem vafalaust hefur komið mörgum á óvart. Á milli hafa líka komið verri leikir og úrslit sem kannski er ekkert óeðlilegt. Meiðsli hafa aðeins sett strik í reikninginn auk þess sem við sáum á bak Svíanum Oskar Sunnefeldt til Kiel fyrir hálfum mánuði eða svo. Hann er frábær miðjumaður sem lék stórt hlutverk í liðinu. Við erum hinsvegar með ágæta breidd leikmanna í hópnum og ef við vinnum vel áfram þá er engin ástæða til að hafa áhyggjur.“

Sterk tengsl við Jótland


Sveinn kann afar vel við sig á Jótlandi því þótt hann segist vera Grafarvogsbúi og Fjölnismaður þá fæddist hann og ólst upp nokkur fyrstu ár sín í Árósum þar sem foreldrar hans voru í námi. „Ég kann þar af leiðandi málið sem hefur hjálpað mér mikið og auðveldað mér lífið. Mér líkar vel við lífið á Jótlandi og tel mig búa við forréttindi að geta lifað af því að æfa og spila handbolta,“ sagði Sveinn sem hefur m.a. farið í heimsókn á bernskuslóðir sínar í Árósum.

Þjálfarinn er goðsögn


Þjálfari Sveins hjá SönderjyksE er einn þekktasti þjálfari Dana þegar kemur að handbolta, Jan Pytlik. Hann er hvað þekktastur fyrir að hafa þjálfað danska kvennalandsliðið frá 1998 til 2006 og aftur frá 2007 til 2014. Undir stjórn Pytlick vann danska kvennalandsliðið sex sinnum til verðlauna á stórmóti, þar af þrisvar sinnum gullverðlaun, á tvennum Ólympíuleikum og einu Evrópumóti. Pytlick tók við þjálfun SönderjyskE í sumar.


„Pytlick er mjög góður þjálfari sem gaman er vinna með. Hann er á sínu fyrsta ári og gengur vel,“ segir Sveinn og ítrekar að hann sé bara í góðum málum sem stendur.

Einstakt tækifæri með landsliðinu


Sveinn var í landsliðshópnum sem tók þátt í EM í byrjun þessa árs. Þótt hann hafi aðeins tekið þátt í einum leik þá segist hann hafa lært mikið af þátttökunni og samverunni með hópnum. „Að sitja á viedófundum með Gumma Gumm þjálfara og nema við fótskör manna sem hafa farið margoft í gegnum svona mót eins og Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson og sjá hvernig þeir búa sig undir leiki og æfingar er einstök reynsla og svolítið annað en að vera í unglingalandsliðinu þótt það sé og hafi verið frábært á sínum tíma. A-landsliðið er annað og það voru hreinlega forréttindi fyrir mig að hafa fengið þetta tækifæri á þessum tímapunkti á ferlinum.

Vonandi fæ ég aftur tækifæri þegar fram líða stundir. Þá mun ég búa vel að þessari reynslu sem ég hef öðlast.
Minn metnaður stendur til þess að leika með íslenska landsliðinu á næstu árum. Á því leikur enginn vafi og að því vinn ég dag hvern,“ sagði Sveinn Jóhannsson, handknattleiksmaður hjá SönderjyskE í Danmörku í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -