- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Erum eins og skilnaðarbarn“

FH-ingar eiga fyrir höndum tvo leiki í Evrópukeppninini í þessum mánuði. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

„Erfiðast í þessu eru misvísandi skilaboð sem íþróttahreyfingunni berast um hvað má og hvað má ekki. Við erum eins og skilnaðarbarn sem bíður í leikskólanum og veit ekki hvort foreldrið kemur vegna þess að þau eru ósammála um forræðið,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is um þá stöðu sem íþróttahreyfingin eða íþróttafélögin á höfuðborgarsvæðinu eru í vegna þeirra misvísandi skilaboða sem berast frá yfirvöldum um hvað er leyfilegt og hvað ekki og hvaða íþróttaaðstaða er opin og hver ekki.


Róbert segir misvísandi skilaboð berast úr öllum áttum, frá ráðuneyti, sóttvarnayfirvöldum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Vorum bjartsýn í gær


„Í gær vorum við bjartsýn á að geta hafið keppni á ný á Íslandsmótinu um miðjan nóvember miðað við reglugerð heilbrigðisráðuneytisins sem gefin var út um helgina. Þar kemur fram að liðin á höfuðborgarsvæðinu, sem hafa verið í æfingabanni, gætu byrjað æfingar á nýjan leik, að hámarki 20 einstaklingar saman, án snertingar og að teknu tilliti til tveggja metra reglurnar. Það er hægt að stunda æfingar með þessum takmörkunum og höfðum við meðal annars farið yfir það og fengið margt staðfest á fundi með lögfræðingi ráðuneytisins í gær um hvað mætti gera og hvað ekki,“ sagði Róbert sem hafði m.a. fundað með forráðamönnum félaga á höfuðborgarsvæðinu þar sem línur höfðu verið lagðar varðandi æfinga á næstunni eftir að reglugerð heilbrigðisráðuneytisins kom út.

Gamanið kárnaði í gærkvöld


Í gærkvöldi kárnaði gamanið, að sögn Róberts, þegar fregnir bárust af því að til stæði að loka íþróttamannvirkjum á höfuðborgarsvæðinu fyrir öllum æfingum frá og með deginum í dag. „Sú varð raunin í morgun þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu tilkynntu að íþróttamannvirkinn yrði lokuð að minnsta kosti næstu vikuna, jafnvel fram til þriðja nóvember.
Þetta eru vonbrigði og ennmeiri í ljósi skilaboðanna sem við fengum um helgina,“ segir Róbert sem vonast til að skýrari mynd dragist upp fyrr en síðar en hann hefur verið í sambandi við forystu Íþrótta,- og Ólympíusambandsins sem leitar leiða við að greiða úr stöðunni í samvinnu við yfirvöld.

Allir settir undir sama hatt


„Við skiljum vel sjónarmið sóttvarnalæknis að ekki megi blanda saman ólíkum hópum innan skólanna en bendum á að starf okkar innan íþróttahreyfingarinnar er margslungið. Þar er að finna afreksstarf, barna,- og unglingastarf og almenningsíþróttir. Það má ekki útiloka einn hópinn frá æfingum þótt einn eða tveir hópar megi ekki æfa.
Við horfum til þess að afreksstarfið okkar geti farið af stað samkvæmt þeim takmörkunum sem ég hef nefnt,” segir Róbert og bendir á ósamræmið.

Það kemur enginn inn af götunni

„Á sama tíma og afreksfólk innan HSÍ má ekki æfa eru líkamsræktarstöðvar opnar með hópatímum með allt að 20 manns svo fremi sem hver og einn iðkandi sé skráður. Innan handboltahreyfingarinnar er hver iðkandi skráður og það kemur enginn inn af götunni og fer að æfa með meistaraflokksliðum karla og kvenna sem taka þátt í Íslandsmótinu. Þarna kristallast misvísandi skilaboð sem okkur berast um hvað má og hvað má ekki sem gerir okkur ráðalaus.
Við þrýstum á úrbætur og svör en eins og áður þá tekur það allt sinn tíma,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -