Ekki fór mikið fyrir því í fréttum í sumar þegar handknattleiksþjálfarinn og fyrrverandi landsliðsmaður Íslands og Georgíu, Roland Eradze, var ráðinn aðstoðar- og markvarðaþjálfari úkraínska meistaraliðsins í karlaflokki, Motor Zaporozhye. Hjá félaginu starfar Roland við hlið sannkallaðs Íslandsvinar, Gintaras Savukinas, en kappinn sá gerði garðinn frægan sem leikstjórnandi karlaliðs Aftureldingar á árunum í kringum aldarmótin. Síðar var Savukinas einnig um nokkurt skeið leikmaður Gróttu/KR og þjálfari hjá ÍBV.
Roland stóð um árabil í marki hjá nokkrum félagsliðum hér á landi auk landsliðsins á stórmótum á fyrsta áratug þessarar aldar. Síðar var hann þjálfari og aðstoðarþjálfari hjá nokkrum félögum, síðast hjá Fram á síðustu leiktíð. Einnig var Roland markvarðaþjálfari landsliðsins þegar Geir Sveinsson þjálfaði karlalandsliðið frá 2016 til 2018.
Savukinas tók við þjálfun Motor Zaporozhye í febrúar á þessu ári og var þar með þriðji þjálfari liðsins á keppnistímabilinu. Áður hafði hann m.a. þjálfað finnsku meistarana HC Riihimäen Cocks um fjögurra ára skeið.
Mikil uppstokkun varð á leikmannahópi úkraínsku meistaranna í sumar. Fimm leikmenn réru á ný mið en átta nýir bættust í áhöfnina.
Auk þess að stefna að sigri í deildarkeppninni heima fyrir verður Motor Zaporozhye-liðið í eldlínunnni í Meistaradeild Evrópu á keppnistímabilinu og verður fróðlegt að fylgjast með þeim félögum, Savukinas og Roland, í baráttu 16 bestu félagsliða Evrópu.