- Auglýsing -
Íslenska kvennalandsliðið kom saman í dag til undirbúnings fyrir leikina við Tyrki í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í næstu viku. Fyrri viðureignin verður í Tyrklandi á miðvikudaginn.
Leikmenn funduðu í dag með landsliðsþjálfaranum Arnari Péturssyni. Lagðar voru línur fyrir næstu daga. Eftir það var tekin létt æfing en flestir leikmenn hafa síðustu tvo daga staðið í ströngu með félagsliðum sínum. Þar af leiðandi snerist æfingin í dag fyrst og síðast um svokallaða endurheimt.
Tvær æfingar verða á dagskrá á morgun áður en haldið verður af stað til Istanbúl í rauðabítið á sunnudaginn.
Handbolti.is mun hafa grannt auga á landsliðinu á næstu dögum vegna leikjanna tveggja. Heimaleikurinn við Tyrki verður á Ásvöllum sunnudaginn 6. mars og býðir Olís íslensku þjóðinni að standa við bakið á landsliðinu í leiknum meðan húsrúm leyfir.
- Auglýsing -