Leik Íslendingaliðsins Bietigheim við Grosswallstadt í þýsku 2. deildinni var frestað á elleftu stundu á miðvikudagskvöld eftir að niðurstaða barst um að einn leikmaður liðsins hafi greinst smitaður af kórónuveirunni aðeins 40 mínútum áður en flauta átti til leiks. Í dag kom í ljós að tveir leikmenn liðsins til viðbótar eru með veiruna og þess vegna hefur leik Bietigheim og TuS N-Lübbecke sem fram átti að fara á morgun verið frestað um óákveðinn tíma.
Eftir fréttirnar á miðvikudagskvöld þá fóru allir leikmenn liðsins og þjálfari í skimun í gær. Niðurstaða þeirrar skimunar lá fyrir í dag. Tekið er fram í yfirlýsingu félagsins að þjálfarinn, sem er Íslendingurinn Hannes Jón Jónsson, sé ekki á meðal þeirra sem hafi smitast.
Auk Hannesar Jóns er markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson í herbúðum suður-þýska liðsins.
Því er haldið opnu að viðureign Bietigheim og HSG Konstanz sem fram á að fara sunnudaginn 1. nóvember geti farið fram.
Kórónuveiran hefur sótt í sig veðrið í Þýskalandi að undanförnu og hefur víða stungið sér niður. M.a. varð að fresta fjórum af níu leikjum sem voru á dagskrá 2. deildar á miðvikudagskvöldið. Þar á meðal leik hjá öðru liði sem tengist Íslendingum, EHV Aue.