Mjög góð frammistaða Grétars Ara Guðjónssonar markvarðar dugði Nice ekki í gær þegar liðið sótti Pontault heim í frönsku B-deildinni í handknattleik. Nice var sterkara lengst af leiksins en heimaliðið var öflugra á síðustu tíu mínútunum og vann með þriggja marka mun, 28:25.
Grétar Ari stóð í markinu allan leikinn og varði 14 skot, þar af tvö vítaköst, sem gerði 34,15% hlutfallsmarkvörslu.
Nice var með tveggja marka forskot í hálfleik, 16:14, og eins áður sagði hafði liðið frumkvæðið lengi vel en því miður fyrir Grétar Ara og félaga þá voru leikmenn Pontault einbeittari á endasprettinum.
Grétar Ari kom til Nice frá Haukum í sumar. Hann hefur leikið fjóra síðustu leiki Nice eftir að hafa misst af leiknum í fyrstu umferð vegna meiðsla.
Nice rekur lestina í deildinni með eitt stig eftir fimm leiki. Fjórtán lið eru í deildinni. Fimm neðstu liðin eru með eitt og tvö stig.
Sélestad, sem Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals, lék með fyrir nokkrum árum er efst í B-deildinni með 10 stig eftir fimm leiki. Saran og Nancy koma þar á eftir með átta stig hvort, Saran eftir fimm leiki en Nancy að loknum fjórum.