Gísli Þorgeir Kristjánsson var allt í öllu hjá SC Magdeburg í dag þegar liðið vann stórsigur á Bergischer HC, 38:25, á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Gísli Þorgeir skoraði átta mörk í 12 skotum og átti tvær stoðsendingar. Hann var markahæsti leikmaður vallarins.
Réðu leikmenn Bergischer ekkert við Hafnfirðinginn sem lék við hvern sinn fingur.
Ómar Ingi Magnússon var að vanda einnig aðsópsmikill hjá Magdeburg. Hann skoraði sex mörk, þar af fimm út vítaköstum auk fjögurra stoðsendinga.
Þetta var 21. sigur Magdeburg í deildinni í 22 viðureignum. Liðið er lang efst og virðist fátt ef nokkuð getað stöðvað það um þessar mundir.
Arnór Þór Gunnarsson kom lítið við sögu hjá Bergischer og átti til að mynda ekki skot á markið sem er harla óvenjulegt.
Magdeburg var sex mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:12.
Fleiri leikir eru á dagskrá þýsku 1. deildarinnar síðar í dag auk viðureignar Lemgo og Melsungen í átta liða úrslitum bikarkeppninnar sem loksins var hægt að koma á dagskrá.