- Auglýsing -
- Danska meistaraliðið Aalborg Håndbold tryggði sér efsta sætið í A-riðli í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í gærkvöld og þar með sæti í átta liða úrslitum keppninnar með öruggum sigri á PPD Zagreb á heimavelli, 31:25. Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar fyrir Álaborgarliðið. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins sem hleypur yfir fyrstu umferð í útsláttarkeppni Meistaradeildar eins og tvö efstu liðin í hvorum riðli gera. Kiel er hitt liðið í A-riðli sem sleppur við fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.
- Sigur Aalborg gerði það að verkum að Zagreb komst ekki upp fyrir Elverum. Þar með eru norsku meistararnir öruggir um sæti í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Elverum tapaði í gær á útivelli fyrir Vardar, 39:30. Orri Freyr Þorkelsson skoraði eitt mark fyrir Elverum. Aron Dagur Pálsson var í leikmannahópi Elverum en kom lítið við sögu í leiknum.
- Haukur Þrastarson og samherjar í Vive Kielce eru öruggir um annað af tveimur sætum í B-riðli Meistaradeildarinnar og með sæti í átta liða úrslitum eins og Aalborg. Kielce vann Dinamo Búkarest á heimavelli í gærkvöldi, 34:29. Haukur tók þátt í leiknum en skoraði ekki. Sigvaldi Björn Guðjónsson er ennþá úr leik vegna meiðsla. PSG og Barcelona kljást um síðara sætið úr B-riðli í átta liða úrslitum í lokaumferð riðlakeppninnar í kvöld.
- Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu þegar EHV Aue tapaði á útivelli fyrir Tusem Essen, 27:24, í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Sveinbjörn Pétursson var stuttan tíma í marki Aue og náði ekki að verja skot. EHV Aue er áfram í þriðja neðsta sæti deildarinnar og þar af leiðandi í fallhættu.
- Elías Már Halldórsson þjálfari Fredrikstad Bkl. fagnaði sigri með liðinu í gærkvöld þegar það lagði Byåsen með 14 marka mun á heimavelli, 39:25, í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Fredrikstad er í níunda sæti þegar 20 umferðum af 26 er lokið með 18 stig eins og Larvik sem á leik til góða.
- Anton Gylfi Pálsson, dómari, meiddist í fyrrakvöld þegar hann var að dæma leik Gróttu og Aftureldingar í Olísdeild karla í handknattleik í Hertzhöllinni. Þar af leiðandi gat hann ekki dæmt undanúrslitaleik KA og Selfoss í Coca Cola-bikarnum eins og til stóð. Bjarki Bóasson hljóp í skarðið fyrir Anton Gylfa og dæmdi með Jónasi á Ásvöllum.
- Auglýsing -