- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Það er bikar í boði, menn vita það“

KA leikur HC Fivers frá Austurríki í Evrópubikarkeppninni . Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Valur og KA leiða saman hesta sína í úrslitaleik Coca Cola-bikars karla í handknattleik á Ásvöllum í dag. Margir telja Valsmenn vera sigurstranglegri í leiknum. Þeir eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar og kjöldrógu FH-inga í undanúrslitum á miðvikudaginn. Þar á ofan hefur Valur unnið tvo stóra sigra á KA í Olísdeildinni á leiktíðinni, 35:26 og 33:20.


KA-menn er alls ekki af baki dottnir. Þeir gefast aldrei upp eins og sást í undanúrslitaleiknum framlengda við Selfoss á miðvikudagskvöld og hafa auk þess verið í talsverðri sókn á síðustu vikum, þótt hik hafi komið á sóknina í heimsókninni til Vals fyrir um hálfum mánuði.


KA-fólk streymi til höfuðborgarinnar og búast má við að margir gulklæddir verði í stúkunni á Ásvöllum klukkan 16 í dag þegar flautað verður til leiks.

Munu selja sig dýrt

Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar og eitt sinn leikmaður KA, segir að KA-menn vilji örugglega gera meira en að mæta til leiks. Þeir muni örugglega selja sig dýrt í leiknum.

Leikmenn Vals fagna í undanúrslitaleiknum við FH á miðvikudagskvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


„Valsmenn eru líklegri en það þarf að spila leikinn. KA menn vilja örugglega meira en þeir hafa sýnt gegn Val og það er enginn sáttur hjá þeim enda væri mjög óeðlilegt ef svo væri,“ sagði Patrekur þegar handbolti.is leitaði til hans og bað hann að velta úrslitaleiknum fyrir sér.

Fyrri úrslit eiga ekki að skipta máli

„Fyrri úrslit í annarri keppni á þessu keppnistímabili eiga ekki að skipta máli en ef Valsmenn byrja leikinn betur og KA menn verða fljótt undir í leiknum þá gæti það gerst að menn fari að efast. En úrslitaleikir í bikarkeppni eru öðruvísi en deildarleikur og það sem gerðist í fyrri umferðum eða á fyrri árum á ekki að hafa áhrif þótt vissulega leiki sálfræði stórt hlutverk í íþróttum,“ sagði Patrekur sér ekki nokkra hættu á að um vanmat verði að ræða að hálfu Valsmanna.


„Snorri [Steinn Guðjónsson þjálfari Vals] mun ekki vanmeta KA. Það er bikar í boði, menn vita það.“

Agaður sóknarleikur – loka á hraðaupphlaup Vals

Spuður hvað verði að ganga upp hjá KA til að standist Val snúning í dag svaraði Patrekur.

„KA menn þurfa að spila þann leik sem þeir hafa gert árið 2022. Markmenn þeirra verða að vera með um 40% markvörslu, vörnin þarf að vera þétt með Óla og Ragnar í aðalhlutverki. Óðinn Þór verður að skora nokkuð mörg mörk eftir hraðaupphlaup og svo þurfa þeir að spila langar agaðar sóknir, sex á sex og gæta þess að Valsmenn keyri ekki yfir þá með hraðaupphlaupum.

Allir leggja í púkkið

Valsmenn eru hrikalega öflugir í dag og virka á mig með mikið sjálfstraust og flestir leikmenn í góðu spil formi. Það er mikil breidd í Valsliðinu og geta þeir þess vegna spilað allan leikinn á háu tempói. Erfitt að taka einn út hjá Val því það eru margir sem eru leggja í púkkið,“ sagði Patrekur.

Mikil stemning

Hvað ber Valsmönnum að varast í leik KA-liðsins?
„Það er mikil stemning hjá KA liðinu um þessar mundir. Leikmenn eru mjög samstilltir inn á vellinum. Þeir eru hins vegar ekki með sömu breidd og Valur. Hvað Valsmenn þurfa að varast er líklega markmenn KA því þeir geta farið inn í hausinn á leikmönnum Vals ef þeir byrja að verja vel og svo er auðvitað Óðinn sá leikmaður sem spilar alltaf vel og verður að hafa gott auga á,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -