- Auglýsing -
Handknattleiksliðið Volda, sem Halldór Stefán Haraldsson hefur þjálfað undanfarin ár, komst í dag í efsta sæti norsku 1. deildarinnar í handknattleik eftir sigur á Gjerpen HK Skien, 24:23, í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar. Leikið var í Skienshallen, heimavelli Gjerpen.
Sara Dögg Hjaltadóttir leikur með Gjerpen en hún var leikmaður Volda á síðustu leiktíð. Hún skoraði þrjú mörk í dag, tvö þeirra skoraði Sara Dögg úr vítakasti. Hún jafnaði metin m.a. úr vítakasti, 22:22, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Voldaliðið skoraði tvö mörk í röð í framhaldinu áður en liðsmenn Gjerpen klóruðu í bakkann tveimur sekúndum fyrir leikslok með 23. markinu.
Viðureignin í dag var afar jöfn og spennandi frá upphafi til enda. Jafnt var í hálfleik, 13:13.
Volda hefur þar með 25 stig í efsta sæti eftir 14 leiki. Gjerpen er í öðru sæti með 23 stig, einnig að loknum 14 leikjum. Haslum er þar á eftir með 21 stig. Önnur lið eru ekki með í baráttunni um efsta sætið um þessar mundir.
Unglingalandsliðskonan, Katrín Tinna Jensdóttir, er leikmaður Volda. Hún skoraði ekki mark að þessu sinni.
Auk Halldórs Stefáns þjálfara er Hilmar Guðlaugsson aðstoðarþjálfari Voldaliðsins.
- Auglýsing -