Ekkert bendir til annars á þessari stundu en að landslið Ísraels mæti til leiks í Portúgal eftir helgina og mæti landsliði heimamanna í undankeppni EM 2022 á miðvikudaginn 4. nóvember. Ráðgert er að leikurinn fari fram í Matosinhos í nágrenni Porto.
Eins og fram kom í gær ákvað Handknattleikssamband Evrópu, EHF, að fresta viðureign Íslands og Ísraels í undankeppninni. Til stóð að leikurinn færi fram hér á landi um aðra helgi. Ísraelsmenn segja að að erfitt sé að ferðast til Íslands. Ferðast verði yfir nokkur lönd áður en komið verður á leiðarenda auk þess sem þeir óttast að leikmenn þeirra verði skipaðir í sóttkví þegar þeir snúa aftur til síns heima. Nokkrir landsliðsmenn leika utan heimalandsins. Í Ísrael hefur nánast ríkt útgöngubann síðustu vikur.
Ekki er langt síðan Handknattleikssamband Íslands féllst á ósk Handknattleikssambands Ísraels að heimaleikjum þjóðanna yrði víxlað. Það er að leikið væri í Reykjavík í nóvember en í Tel Aviv næsta vor. Upphaflega stóð til að íslenska landsliðið sækti það ísraelska heima í næsta mánuði.
Á heimasíðu Handknattleikssambands Ísraels segir að um þessar mundir hafi leiknum við Portúgal ekki enn verið frestað. Ekki hefur verið leikinn handknattleikur í ísraelsku deildarkeppninni í átta mánuði og má lesa á síðunni að menn bera ótta í brjósti um að eftir svo langan tíma geti verið meiri hætta á meiðslum leikmanna.