Aron Pálmarsson skoraði eitt mark þegar Barcelona vann Benidorm, 41:28, í spænsku 1. deildinni í handknattleik í gær en leikið var í Barcelona. Aron og félagar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 22:16. Þetta var annar leikur Barcelona á tveimur dögum en í fyrrakvöld mætti Barcelona Aalborg í Meistaradeildinni. Í dag sækir Barcelona lið Cisne heim, einnig í spænsku deildinni. Cisne er ekki fjarri Vígó við Atlantshafsströnd Spánar.
Fáheyrt leikjaálag er á leikmönnum Barcelona um þessar mundir en fátítt er að lið leiki þrjá leiki á þremur dögum. Leikurinn við Benidorm átti að fara fram fyrir nærri hálfum mánuði en var frestað þegar kórónuveiran stakk sér niður í herbúðir Barcelona-liðsins.
Aron kemur síðan til Íslands annað kvöld til þátttöku í landsleik Íslands og Litháen á miðvikudaginn í Laugardalshöll.
Thea Imani Stuludóttir og samherjar í Århus United töpuðu fyrir Odense Håndbold, 33:27, þegar 10. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik hófst í gærkvöldi. Leikið var í Óðinsvéum. Heimaliðið var með níu marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 19:10. Thea skoraði ekki mark að þessu sinni. Hún átti eitt markskot.
Þetta var annar leikur liðanna á skömmum tíma því þau mættust einnig í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í vikunni þar sem Odense vann með 14 marka mun, 31:17. Odense er efst í deildinni með 18 stig. Århus United er í 7. sæti af 14 liðum með níu stig.
Ekkert verður af því að Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach sæki Wilhelmshavener heim í dag í 2. deild þýska handboltans. Kórónuveira bankaði á klefadyrnar hjá Wilhelmshavener í vikunni og í gær reyndust einhverjir leikmenn liðsins smitaðir við skimun.
Engir leikir fara fram í þýsku 3. deildinni í handknattleik frá 2. til 15. nóvember og í deildum ungmennaliða á sama tímabili vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Stjórn þýsku deildarkeppninnar samþykkti þetta í gær.