- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að hugsa allt upp á nýtt

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals. Mynd/Valur
- Auglýsing -

„Nú þarf maður bara aftur að hugsa út fyrir boxið,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals, í samtali við handbolta.is um þá stöðu sem komin er upp nú þegar æfingar eru óheimilar a.m.k. fram til 17. nóvember.


„Staðan er einfaldlega sú að það er heimsfaraldur í gangi. Við stjórnum ekki þróuninni og verðum bara að taka þeim áskorunum sem mæta okkur af bestu getu með jafnaðargeði. Það er erfitt að ætla sér að stjórna hópi manna sem ekki má æfa saman. Þess vegna þarf að hugsa hlutinu upp á nýtt og mæta þeirri stöðu sem komin er upp. Ábyrgðin er meira komin yfir á hvern og einn leikmann. Þeir sem eru duglegir og halda vel á spilunum koma þokkalega undan þessu ástandi þegar allt fer af stað aftur,“ sagði Snorri Steinn og bætir við að ómögulegt sé að segja til um hvernig ástandið verður þegar opnað verður fyrir æfingar á nýjan leik og síðan keppni. Þá viti hreinlega enginn hvenær heimilt verður að æfa aftur. Snorri telur ólíklegt að æfingar verði heimilaðar strax eftir 17. nóvember ef nýjustu aðgerðir gangi vel. Boðað hafi verið að álögum verði létt í skrefum. “Menn fara yfirleitt ekki úr núll upp í hundraðí einum vetfangi.”

Þarf að huga að hag leikmanna


„Það er ómögulegt að segja hvernig menn koma undan þessu ástandi, til dæmis með tilliti til meiðslatíðni og fleiri atriða. Eina sem er víst er að pásan er og verður löng. Um leið og henni lýkur þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að menn leiki tvo til þrjá leiki í viku til þess að ljúka keppnistímabilinu. Það þarf að hugsa um hag leikmanna og heilsu þeirra, ekki bara að ljúka mótinu innan sama ramma og verið hefur.“

Breyting á keppnisfyrirkomulagi?


„Eina sem ég tel ólíklegt er að núverandi keppnisfyrirkomulag með 22 leikjum í deildinni og síðan úrslitakeppni verði niðurstaðan þegar upp verður staðið með tilliti til þess að HM tekur yfir janúar og síðan verða landsleikjahlé í vor. Kannski þarf að vera með annað fyrirkomulag á mótinu,“ sagði Snorri Steinn.


Spurður hvort hann vildi deila þeim hugmyndum svaraði Snorri Steinn að hann léti það í hendur Handknattleikssambandsins. „Annað sem er víst er að við komust aldrei niður á fyrirkomulag sem allir verða sáttir við. Ég bara tek því sem að verða vill.“

Fáum litlu ráðið í þessari stöðu


„Það getur vel verið að ég sé orðinn svo sjóaður í þessu efnum en eins og staðan er þá hef ég ekki þungar áhyggjur af þessu. Ástandið er þannig yfirhöfuð að við fáum við lítið ráðið.


En vissulega tekur staðan á sálarhlið leikmanna sem biðu sex mánuði eftir leikjum áður en þeir náðu að spila fjórar umferðir. Óvissan er mikil og ekki hægt að veifa gulrótum framan í leikmenn því að það er ekki enn farið að sjást í ljós við enda ganganna. Við vitum ekki hvenær þessu verður lokið.“

Snýst um fleira en meistaraflokka


Uppi eru hugmyndir um að Íslandsmótið standi yfir til loka júní á næsta ári ef þurfa þykir. Snorri segir að sín persónulega skoðun skipti ekki meginmáli í þeim efnum. „Aðalatriðið er að við höldum íþróttinni gangandi þegar það verður mögulegt aftur. Það er svo margt sem spilar inní annað en akkúrat meistaraflokkarnir. Eins og til dæmis yngri flokkarnir og almennur áhugi fyrir íþróttinni. Þannig að ef við verðum að leika Íslandsmótið langt fram á sumar til að klára það þá gerum við það,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Vals í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -