- Auglýsing -
- Ekkert varð af því að Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í BSV Sachsen Zwickau heimsæktu liðsmenn Leverkusen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær eins og til stóð. Nokkur covid smit komu upp í herbúðum Leverkusen á laugardaginn og þar með var viðureigninni frestað til betri tíma.
- Storhamar, liðið sem Axel Stefánsson þjálfar, heldur örugglega öðru sæti norsku úrvalsdeildar kvenna í handknattleik. Storhamar lagði hið forna stórveldi, Larvik, 34:28, á heimavelli í gær.
- Sænski markvörðurinn Sofie Börjesson sem nú stendur á milli stanganna hjá IK Sävehof færir sig um set í sumar og gengur til liðs við Evrópumeistara Vipers Kristiansand. Börjesson leysir af landa sinn Evelina Eriksson. Hún hefur samið við CSM Búkarest eins og handbolti.is sagði frá í síðustu viku.
- Norska handknattleikskonan Andrea Austmo Pedersen gengur til liðs við Herning-Ikast fyrir næsta keppnistímabil. Pedersen þykir talsvert efni á handboltavellinum. Hún hefur hinsvegar ekki fengið nægilega mörg tækifæri hjá Vipers Kristiansand og vill þar með spreyta sig hjá öðru félagi.
- Frakkar unnu Dani, 28:26, og Noregur og Spánn skildu jöfn, 26:26, í lokaumferð fjögurra liða móts í handknattleik karla í Danmörku í gær. Frakkar unnu báða leiki sína á mótinu. Danir unnu tvo af þremur en Spánverjar og Norðmenn öngluðu í eitt stig hvorir. Frakkar og Spánverjar léku tvo leiki á mótinu en Danir og Norðmenn þrjá.
- Evrópumeistarar Svíþjóðar í handknattleik karla unnu Pólverja öðru sinni í vináttulandsleik í Póllandi í gær, 28:24. Svíar unnu fyrri viðureignina, 27:24.
- Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu unnu ungverska landsliðið með eins marks mun í vináttulandsleik í Kassel í Þýskalandi í gær, 30:29.
- Auglýsing -