- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nú reynir á að menn sýni aga

Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA, leggur línurnar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Jónatan Magnússon þjálfari karlaliðs KA í Olísdeildinni hefur getað haldið úti æfingum með sínum leikmönnum allt fram til þessa meðan þjálfarar á höfuðborgarsvæðinu hafa búið við ýmis skilyrði. Jónatan segir að það hafi verið áskorun að halda mönnum við efnið þegar óvíst væri hversu langt væri í næsta leik. Nú þegar æfingar hafa verið óheimilaðar á Akureyri eins og annarstaðar á landinu segir Jónatan það vera undir hverjum og einum að halda sig við efnið.

Varðandi framhaldið á mótinu segir Jónatan erfitt að segja til um á þessari stundu. Ljóst er þó í hans huga að lengja verði keppnistímabilið í Olísdeild fram eftir vori til að dreifa álaginu sem verður á leikmönnum þegar flautað verður til leiks aftur, hvenær sem það verður.

Handbolti.is sendi Jónatan fjórar spurningar sem hann svaraði um hæl. Spurningar og svör hér að neðan.

Hvernig hefur gengið að halda leikmönnum við efnið síðustu vikur?

„Frá því að keppni var aflýst þá höfum við norðanmenn reynt að æfa af krafti, og gera eins vel úr þeirri stöðu sem hefur verið uppi. Við vorum heppnir að vera ekki í sömu sporum og félögin á höfuðborgarsvæðinu. Engu að síður hefur reynt á hópinn að halda uppi einbeitingu. Það er krefjandi að æfa og vita að það er langt í næsta leik.“

Hvernig horfir þú til næstu vikna sem þjálfari?

„Nú er komin upp sú staða að engar sameiginlegar æfingar verða á næstu dögum og vikum. Þess vegna er ljóst að mínir leikmenn verða að vera gríðarlega agaðir í sinni vinnu sem er framundan. Við munum setja upp plan en það er svo í höndum hvers leikmanns að fara eftir því.“

Er eitthvað hægt að velta framhaldinu fyrir í sér í deildarkeppninni meðan óljóst er hvenær verður hægt að hefja æfingar af einhverjum krafti?

„Ég held að það sé í raun bara tímaeyðsla að velta framhaldinu allt of mikið fyrir sér. Eina sem ég sé að gæti verið klókt er að HSÍ gæfi sér strax lengri tíma til þess að klára deildarkeppnina, jafnvel bæta við auka mánuði. Þá gæti deildinni verið lokið í kringum 20. maí. Þá væri mögulega hægt að raða mótinu þannig upp að það væri ekki galið leikjaálag þegar við förum aftur af stað.“

Hvaða áhrif getur ástand síðustu vikna, þ.e. leikið, takmarkaðar og jafnvel litlar æfingar, haft á framhaldið hjá liðum Olís karla, svona heilt yfir?

„Það er ljóst að þegar verður farið af stað aftur, þá er alltaf meiri hætta á meiðslum og því gæti það farið svo að þau lið sem gengur best að halda mönnum í lagi, geta farið langt á því.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -