„Ég var gríðarlega stoltur þegar að það var haft samband við mig og tjáð að það væri verið að kalla mig inn í landsliðshópinn. Þvílíkur heiður að fá tækifæri til að vera kominn á þann stað,“ sagði Hákon Daði Styrmisson, handknattleiksmaður ÍBV og vinstri hornamaður þegar handbolti.is heyrði í honum í dag. Hákon Daði var kallaður inn í A-landsliðið í fyrsta sinn á föstudaginn.
Hákon Daði hefur þrátt fyrir ungan aldur verið um árabil í stóru hlutverki hjá ÍBV en einnig með Haukum um tveggja ára skeið.
„Það verður æðislegt að komast bara hreinlega á æfingu á morgun og fá að sprikla hvað þá með þeim bestu,“ sagði Hákon Daði um að njóta þeirra forréttinda að fá að æfa nokkrum sinnum í hópi samherja þegar allar æfingar íþróttafélaga eru almennt óheimilar. Landsliðið fékk sérstaka undanþágu heilbrigðisyfirvalda til æfinganna og leiksins við Litháen í undankeppni EM í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld.
Hann segir vissulega leiðinlegt fyrir landsliðið að bæði Bjarki Már Elísson og Oddur Gretarsson hafi neyðst til að draga sig út úr landsliðinu á elleftu stundu. Það hafi hinsvegar skapað rými fyrir hann og Orra Frey Þorkelsson sem var valinn í landsliðið í morgun.
„Það er mjög óheppilegt að þeir Bjarki og Oddur komist ekki. En vissulega mjög spennandi fyrir mig að komast inn þótt aðstæður séu þessar,“ sagði Hákon Daði sem mætir á fyrstu landsliðsæfinguna í fyrramálið undir ströngum sóttvarnareglum. Hann dvelur nú í vinnusóttkví með landsliðsmönnum á hóteli í Reykjavík eftir að hafa gengist undir skimun fyrir kórónuveiruna.