Gummersbach heldur fjögurra stiga forskoti í efsta sæti þýsku 2. deildarinnar í handknattleik eftir að 27. umferð af 38 fór fram í gær. Gummersbach, sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar, vann Tusem Essen með fjögurra marka mun, 32:28, í Essen.
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk í fjórum tilraunum fyrir Gummersbach í Essen í gær. Raul Santos og Fynn Herzig voru markahæstir með sex mörk hvor. Markvörðurinn Martin Nagy, fyrrverandi liðsmaður Vals, sat á varamannabekknum frá upphafi til enda leiksins.
Kærkomið stig
Arnar Birkir Hálfdánsson og Sveinbjörn Pétursson kræktu í kærkomið stig með EHV Aue í harðri baráttu fyrir áframhaldandi tilverurétti í deildinni. Aue gerði jafntefli við Tuma Stein Rúnarsson og samherja í Coburg, 27:27. Leikið var á heimavelli í Aue-liðsins. Sebastian Paraschiv jafnaði metin fyrir EHV Aue á næst síðustu sekúndu leiksins
Egilsnes skoraði fjögur
Arnar Birkir skoraði aðeins eitt mark að þessu sinni og átti eina stoðsendingu. Sveinbjörn stóð í marki Aue í nærri 20 mínútur og varði þrjú skot. Færeyingurinn Áki Egilsnes, fyrrverandi leikmaður KA, skoraði fjögur mörk fyrir Aue og átti tvær stoðsendingar.
Tumi Steinn skoraði tvö mörk í leiknum í þremur skotum og átti eina stoðsendingu.
Örn stóð fyrir sínu
Örn Vésteinsson Östenberg skoraði fimm mörk í átta skotum fyrir TV Emsdetten þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir Eisenach, 30:27, á heimavelli. Anton Rúnarsson, leikmaður Emsdetten, skoraði ekki mark að þessu sinni en átti þrjár stoðsendingar.
Staðan í þýsku 2. deildinni: