- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ómar markahæstur þegar Evrópmeistararnir sluppu með skrekkinn

Ómar Ingi Magnússon leikmaður Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Evrópumeistarar SC Magdeburg sluppu fyrir horn og eru komnir í átta liða úrslit Evrópdeildarinnar í handknattleik karla í kvöld eftir eins marks sigur á Sporting Lissabon á heimavelli í kvöld í sannkölluðum háspennuleik, 36:35. Tæpara gat það vart verið eftir jafntefli 29:29 í fyrri viðureigninni. Magdeburg á titil að verja í Evrópudeildinni.


Leikmenn Sporting veittu harða mótspyrnu í leiknum í kvöld og voru m.a. tveimur mörkum yfir, 34:32, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Þeir komust yfir, 35:34, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.


Ómar Ingi Magnússon jafnaði metin úr vítakasti, 35:35. Leikmenn Sporting töldu sig svikna um mark í næstu sókn á eftir. Þegar dómarar höfðu kveðið niður mótmæli fór svo að leikmaður Sporting og þjálfari fengu tveggja mínútna brottvísun. Lék portúgalska liðið til loka tveimur mönnum færra. Töf var dæmd á leikmenn Magdeburg þegar um mínúta var eftir í jafnri stöðu og liðið tveimur mönnum fleiri. Eftir leikhlé þegar 45 sekúndur voru eftir hóf Sporting sókn sem lauk með skoti úr slæmri stöðu þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Markvörður liðsins var fjarverandi og Lukas Mertens var fljótur að átta sig á því og skoraði yfir endilangan völlinn í autt mark Sporting sigurmarkið. Leikmenn Sporting reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin en allt kom fyrir ekki. Jöfnunarmark hefði tryggt Sporting sæti í átta liða úrslitum vegna fleiri skoraðra marka á útivelli.


Eftir leikinn kom til hressilegra orðahnippinga og hrindinga á milli leikmanna og þjálfara beggja liða svo lítill sómi var af. Tók drjúgan tíma að koma ró á mannskapinn svo leikmenn Magdeburg gætu fagnað með stuðningsmönnum sínum sem létu sig ekki vanta á leikinn.


Ómar Ingi var markahæstur hjá Magdeburg með 10 mörk auk fimm stoðsendinga. Gísli Þorgeir skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu. Hann meiddist á læri í síðari hálfleik og kom ekkert við sögu eftir það.


Nimes vann slóvensku meistarana Gorenje Velenje, 35:30, á heimavelli. Sá sigur nægði franska liðinu ekki til að komast áfram þar sem Slóvenar unnu mðe sjö marka mun á heimavelli fyrir viku.


Í átta liða úrslitum eru þar með auk Magdeburg og Gorenje Velenje, GOG, Kedetten Schaffhausen, Benfica, Nantes, Nexe og Wisla Plock eins og handbolti.is sagði frá fyrr í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -