„Það var bara alveg geggjað að spila með strákunum,“ sagði Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson sem fór á kostum í sínum fyrsta stórleik með A-landsliðinu í kvöld gegn Litháen. Hann nýtti tækifærið svo sannarlega í botn og skoraði átta mörk í átta skotum, jafnt eftir uppstillan leik sem og eftir hraðaupphlaup. Hákon Daði var markahæsti leikmaður vallarins.
„Ég var bara ákveðinn í að njóta þess að spila með strákunum í kvöld. Það varð síðan til að gera þetta allt saman enn betra hversu vel mér gekk,“ sagði Hákon Daði ennfremur og bætti við að líf hornamannsins væri ekki alltaf svona skemmtilegt.
„Stundum hleypur maður fram og til baka eftir vellinum heilu leikina án þess að skora en nú fékk ég úr miklu að vinna. Það er bara alveg magnað að leika með Aroni Pálmarssyni, Elvari Erni Jónssyni, Janusi Daða Smárasyni og Gísla Þorgeiri Kristjánssyni. Hreinlega forréttindi enda menn sem kunna sitt fag og losa boltann alltaf á hárréttum tíma,“ sagði Hákon Daði sem var sallarólegur yfir frammistöðu sinni. Spurður hvort hann teldi möguleika sína hafa aukist á að vera kallaður inn að nýju sagðist Hákon Daði ekki ætla að meta það.
„Nú opnaðist gluggi fyrir mig og það var mikilvægt að nýta hann. Mér tókst það,“ sagði Hákon Daði.
Meira en mánuður er liðinn síðan Hákon Daði lék keppnisleik síðast en hann gat þó æft á fullu fram að síðustu helgi. „Það hjálpaði mér mikið að við máttum æfa í Eyjum meðan liðin í bænum máttu það ekki. Ég náði að halda mér við sem skipti miklu máli þegar þessi gluggi opnaðist,“ sagði Hákon Daði Styrmisson sem kom inn í landsliðið um síðustu helgi þegar Oddur Gretarsson dró sig út af persónulegum ástæðum.