Viggó Kristjánsson átti stórleik í kvöld þegar lið hans Stuttgart lagði Balingen, 28:25, á útivelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Hann skoraði 10 mörk í 11 skotum og átti þrjár stoðsendingar. Fjögur marka sinni skoraði Seltirningurinn af vítalínunni en á þeim stað geigaði eina markskot hans að þessu sinni.
Andri Már Rúnarsson var ekki á meðal markaskorara Stuttgart að þessu sinni. Daníel Þór Ingason skoraði heldur ekki fyrir Balingen. Hann átti tvær stoðsendingar og var einu sinni vísað af leikvelli. Oddur Gretarsson er ennþá á sjúkralista Balingen-liðsins.
Stuttgart er í fjórða neðsta sæti með 16 stig, er fimm stigum á undan Balingen sem er næst neðst með 11 stig, stigi fyrir ofan N-Lübbecke.
Janus Daði Smárson skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar fyrir Göppingenliðið sem vann annan Íslendingaslag í þessari umferð þýsku 1. deildarinnar. Göppingen lagði MT Melsungen, 26:24, á heimavelli Melsungenliðsins.
Elvar Örn Jónsson var atkvæðamikill hjá Melsungen. Hann skoraði fjögur mörk, átti þrjár stoðsendingar og var einu sinni vikið af leikvelli í tvær mínútur. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Melsungen. Arnar Freyr Arnarsson hafði lítt í frammi að þessu sinni.
Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá Lemgo með sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, þegar liðið tapaði í heimsókn sinni til Leipzig, 29:25.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði ekki mark fyrir Bergischer HC þegar liðið tapaði fyrir Erlangen, 30:23, á útivelli. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var fastur fyrir í vörn Rhein-Neckar Löwen þegar liðið tapaði með sex marka mun á heimavelli fyrir HSV Hamburg, 34:28. Danski hornamaðurinn, Casper Mortensen, átti stórleik fyrir Hamborgarliðið, skoraði 10 mörk.
Staðan í þýsku 1. deildinni: