„Þetta var ekki draumabyrjun en því miður eitthvað sem ég átti alveg eins von á,“ sagði Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik í samtali við þýska fjölmiðla eftir að lið hans hafði lent í kröppum dansi gegn Bosníu í fyrsta leiknum undir stjórn Alfreðs. Leikið var í Düsseldorf.
Þýska liðið var undir meira og minna fyrstu 45 mínútur leiksins en vann endasprettinn og leikinn þar með, 25:21.
„Þar með er fyrsti leikurinn minn með liðið að baki og við unnum þótt mjög margt hafi mátt ganga betur. Framundan er vinna hjá okkur,“ sagði Alfreð ennfremur. 273 dagar eru liðnir síðan tilkynnt var um ráðningu hans í starf landsliðsþjálfara Þýskaland.
Kórónuveiran hefur komið í veg fyrir að landsliðið hafi komið saman fyrr en nú. Til stóð að þýska liðið æfði og léki í vor og eins snemma sumars í undankeppni HM. Ekkert varð úr.
Þýska liðið var fjórum mörkum undir í hálfleik, 13:9. Spurður hvort hann hafi lesið mönnum pistilinn í hálfleik svaraði Alfreð að hann hafi ekki tekið fram hárblásarann „Ég talaði ekki mjög hátt. Allir gerðu sér grein fyrir að við yrðum að gera betur og hvað vantaði upp á í leik okkar.“