- Auglýsing -
- Per Johansson hættir sem landsliðsþjálfari Svartfjallalands í kvennaflokki að loknum Evrópumótinu í næsta mánuði. Svíinn ætlar að einbeita sér að þjálfun rússneska meistaraliðsins Rostov-Don sem hann tók við þjálfun á í sumar. Johansson hefur stýrt svartfellska landsliðinu síðustu þrjú ár.
- Leikið verður á einum stað í Danmörku, eins og í Noregi, á EM kvenna í næsta mánuði. Eins og sagt var frá á handbolti.is í gærmorgun þá er ekki mögulegt að leika einn riðil EM í Frederikshavn, eins og til stóð, eftir að íþróttahúsum á norður Jótlandi var skipað að loka næsta mánuðinn eftir aðkórónuveirusmit komu upp í minkabúum á svæðinu. Ákveðið var í gær að allir leikir sem fram eiga að fara í Danmörku verði í Jyske Bank Boxen í Herning á suðurhluta Jótlands. Áður stóð til að einn riðill yrði þar og eins keppni í milliriðlum.
- Staðfest var í gær að Peter Bredsdorff-Larsen hættir um mitt næsta ár sem þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Bjerringbro/Silkeborg. Uppi voru sögusagnir á dögunum að Bredsdorff-Larsen fengi ekki nýjan samning eftir leiktíðina. Getgátur eru uppi um að Íslandsvinurinn Patrick Westerholm taki við en einnig þykja Henrik Kronborg, aðstoðarlandsliðsþjálfari karla, og Klavs Bruun Jørgensen, fyrrverandi landsliðsþjálfari Dana í kvennaflokki og þrautreyndur landsliðsmaður, koma til álita.
- Þýski landsliðsmarkvörðurinn Dinah Eckerle hefur samið við Metz í Frakklandi. Hún gekk til liðs við Siofok KC í sumar en losnaði undan samningi þar á dögunum eftir að upp úr sauð hjá liðinu og nokkrir leikmenn hættu í kjölfarið á þjálfaraskiptum.
- Auglýsing -