Markadrottning Olísdeildar kvenna, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir leikmaður HK og landsliðskona í handknattleik, hefur skrifað undir þriggja ára samning við sænska úrvalsdeildarliði Önnereds í Gautaborg. Félagið tilkynnti þetta í morgun.
Önnereds hafnaði í sjöunda sæti í sænsku úrvalsdeildinni sem lauk í síðasta mánuði en féll úr leik í úrslitakeppninni í átta liða úrslitum eftir þrjár viðureignir við Skuru IK á dögunum.
„Jóhanna Margrét er mikilvægur hlekkur í framtíðar uppbyggingu liðsins,“ segir Krister Bergström forsvarsmaður Önnereds í frétt á heimasíðu félagsins. Hann segir ennfremur að með komu stórskyttu eins og Jóhönnu Margrétar munu liðið vafalaust taka breytingum enda hafi það ekki verið þekkt sem skyttulið á síðustu árum.
Forsvarsmenn Önnereds eru stórhuga og ætla sér að taka skref fram á við á næstu leiktíð en að baki þess standa sterkir bakhjarlar auk þess sem aðstaða liðsins til æfinga og keppni mun vera eins og best verður á kosið.
Jóhanna Margrét, sem stendur á tvítugu, er markadrottning Olísdeildarinnar sem lauk í gær. Hún skoraði 127 mörk í 21 leik.
Á dögunum var Jóhanna Margrét valin í 18 manna landsliðshóp sem mætir Svíum og Serbum í undankeppni Evrópumótsins 20. og 23. apríl. Íslenska landsliðið kemur saman til fyrstu æfingar í dag. Jóhanna Margrét á þrjá A-landsleiki að baki.
Útlit er fyrir að fjórar íslenska handknattleikskonur leiki í sænsku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Auk Jóhönnu þar um að ræða systurnar Ásdísi Þóru og Lilju Ágústsdætur hjá Lugi og Andreu Jacobsen hjá Kristianstad.