Ekki eru horfur á að Elvar Örn Jónsson leiki með íslenska landsliðinu í handknattleik á morgun þegar liðið mætir austurríska landsliðinu á Ásvöllum í síðari viðureigninni í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu í handknattleik.
Elvar Örn fékk þungt högg á aðra öxlina þegar hann féll í gólfið í átökum við leikmann austurríska landsliðsins í landsleiknum í Bregenz á miðvikudagskvöld. Féll Elvar flatur og tókst ekki að bera hendurnar fyrir sig til að draga úr högginu.
Ástand Elvars Arnar var áhyggjuefni þegar handbolti.is leitaði eftir tíðindum af heilsu hans eftir æfingu landsliðsins á Ásvöllum síðdegis í dag. Talið er líklegt að mynda verði öxlina til þess að fá úr því skorið hvort meiðsli séu mjög alvarleg.
Daníel Þór Ingason og Haukur Þrastarson tóku ekki þátt í fyrri viðureigninni á miðvikudaginn af þeim sem voru valdir í 18 manna æfingahóp fyrir leikinn. Annar hvor þeirra kemur væntanlega inn í hópinn á morgun í stað Elvars Arnar.
Út frá hlutverki varnarmanns verður að telja sennilegra að Daníel Þór fremur en Haukur verði í hópnum. Málið skýrist í fyrramálið þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari velur keppnishópinn.
Viðureign Íslands og Austurríkis hefst klukkan 16 á morgun á Ásvöllum. Ísland vann fyrri leikinn með fjögurra marka mun, 34:30.