- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Taldi mig vera ósnertanlegan

Hannes Jón Jónsson hefur ákveðið að láta gott heita hjá Bietigheim. Mynd/Bietigheim
- Auglýsing -

„Þetta eru krefjandi tímar og ný viðfangsefni í hverri viku,“ sagði Hannes Jón Jónsson þjálfari þýska handknattleiksliðsins Bietigheim sem leikur í 2. deild. Mikil röskun hefur orðið á keppni í deildinni vegna kórónuveirunnar. Eins hefur þjálfun farið úr skorðum, þar á meðal hjá Bietigheim vegna smita og veikinda leikmanna.

Hannes Jón hefur ekki sloppið heldur. Hann veiktist á dögunum og var í einangrun þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið á sunnudagskvöld.

Slæmur í þrjá sólarhringa

„Ég vonast til að losna úr á þriðjudaginn,“ sagði Hannes Jón. „Ég var mjög slappur í um þrjá sólarhringa, með hita og beinverki en er orðinn mikið betri núna. Konan mín smitaðist einnig en fann ekki fyrir miklum einkennum. Börnin hafa öll sloppið sem betur fer og verið hress og virk í öllu sínu eins og ekkert hafi ískorist miðað við aðstæður,“ sagði Hannes Jón sem er í frábæru líkamlegu formi, æfir vel og hugsar vel um sig.

„Ég var ekki sáttur þegar ég fékk tilkynningu um að ég væri með covid. Taldi mig vera ósnertanlegan og fann ég ekki fyrir einkennum. Sólarhring síðar var komið annað hljóð í strokkinn.“

Er lúmskur andskoti

Sjö leikmenn Bietigheim hafa greinst með kórónuveiruna. Hannes segir mjög misjafnt hvernig veiran lagðist á þá. Sumir voru nánast einkennalausir, aðrir veikir og einn veiktist mjög illa.

„Sá sem veiktist mest er nánast kominn á byrjunarreit aftur varðandi æfingar, svo illa fór þetta í hann. Þetta er lúmsur andskoti,“ sagði Hannes Jón sem undirbjó allar æfingar liðsins í síðustu viku í fjarvinnu í samstarfi við aðstoðarmenn. Segir hann það hafa gengið vel og sína menn hafa verið klára í slaginn hefði kom til þess að þeir léku eins og til stóð.

Aflýst fyrir mistök

Bietigheim, sem er staðsett rétt utan við Stuttgart í suðurhluta Þýskalands átti að leika á laugardaginn við HSG Konstanz. Hætt var við á föstudagskvöld eftir að einn leikmaður Konstanz greindist jákvæður við skimun. Á sunnudagsmorgun var hinsvegar tilkynnt að mistök hafi verið gerð og leikmaðurinn ekki reynst jákvæður.

„Þetta er sérstakt en gerist því miður. Það sem flækir hlutina hér í Þýskalandi er að hvert sambandsríki hefur sínar eigin sóttvarnareglur. Þess vegna er brugðist við á misjafnan hátt ef smit kemur upp hjá félagsliðum. Sumstaðar fer allt liðið í sóttkví eftir að einn greinist jákvæður en annarstaðar fer eingöngu sá sem er smitandi í sóttkví og einangrun eftir að smit hefur verið staðfest.“

13 leikir fram að áramótum

Þriðjungur er nú liðinn af nóvember og nærri sex vikur síðan keppni hófst í 1. og 2. deild í þýska karlahandboltanum. Bietigheim hefur aðeins lokið tveimur leikjum meðan önnur eru búin með fimm eða sex leiki. Hannes Jón segir að framundan sé hinsvegar mikil törn ef ástand leyfir.

„Fyrir mig sem þjálfara er mjög erfitt að segja til um hvar liðið er statt um þessar mundir eftir allt þetta rask. Ef allt gengur að óskum þá leikum við tvo leiki á viku fram í miðjan desember. Fram að áramótum þá eigum fyrir höndum þrettán leiki. Það er ansi þétt dagskrá.“

Ánægður með stöðu liðsins

„Leikmenn gera sér vel grein fyrir ástandinu. Þeir eru jákvæðir og tilbúnir að láta allt ganga eins vel og mögulegt er. Gera það besta úr stöðunni hverju sinni. Ég er mjög ánægður með að liðið mitt komst í gegnum síðustu æfingaviku án meiðsla eftir að leikmenn höfðu setið heima í tíu daga,“ segir Hannes Jón og bendir á að á hans svæði í Þýskalandi má fólk sem er í sóttkví ekki fara út fyrir hússins dyr. „Þetta er eins og einangrun.“

Hitt er svo annað mál sem ekki verður hægt að leggja mat á fyrr en við lok leiktíðar hvernig þetta misjafna álag á eftir að koma niður á leikmönnum, t.d. varðandi meiðsli. „Þá mun koma fram hverjir hafa nýtt tímann best til þess að huga að líkamlega þættinum,“ sagði Hannes Jón.

Ætlar sér upp

Stefna liðsins er óbreytt og hún er að berjast á toppnum og endurheimta sæti sitt í efstu deild sem tapaðist vorið 2019. „Fyrirfram þá búast flestir við að fjögur lið verði mesti í baráttunni um sætin tvö. Auk okkar verður það Hamm-Westfalen, TuS N-Lübbecke og Gummersbach. Einnig geta Hamburg og Elbflorenz blandast í baráttuna. Annars hefur deildin verið afar jöfn á síðustu árum og örfá stiga skilið að efstu lið og þau í neðri hlutanum. Þar af leiðandi er erfitt að segja, ekki síst núna þegar menn vita ekki hvaða stefnu faraldurinn tekur né hvaða áhrif hann hefur á liðin til lengri og skemmri tíma,“ sagði Hannes Jón Jónsson, þjálfari Bieitigheim í þýsku 2. deildinni í handknattleik.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -