Annar þýskur landsliðsmaður hefur greinst sem kórónuveiruna eftir landsleiki þýska landsliðsins fyrir og um síðustu helgi. Franz Semper, leikmaður Flensburg greindist jákvæður í morgun en í gær var greint frá því að landsliðsmarkvörðurinn Johannes Bitter hafi smitast.
Vegna veikinda Semper hefur viðureign Flensburg og Melsungen sem fram átti að fara í kvöld í Flensburg verið frestað.
Bæði lið, Flensburg og Melsungen, eru með leikmenn innan sinna raða sem tóku þátt í landsleikjum í síðustu viku og á sunnudaginn. Þar á meðal eru Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður Íslands og Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari. Þeir eru báðir hjá Melsungen.
Eftir því sem fram kemur í þýsku fjölmiðlum mun Samper vera sá eini úr fyrrgreindum tveimur liðum sem hefur greinst smitaður af veirunni.
Melsungen-liðið kom til Flensborgar í gær, degi fyrir leik. Það sneri til baka í morgun.
Uppfært klukkan 13.30: Þriðji landsliðsmaðurinn hefur greinst jákvæður. Þar er um að ræða Marian Michalczik, leikmann Füchse Berlin. Samherji hans hjá Berlínarliðinu og landsliðinu í síðustu tveimur leikjum, Paul Drux, er kominn í sóttkví meðan beðið er niðurstöðu úr rannsókn á sýni frá honum.