Helsta vonarstjarna þýska karlahandboltans, Juri Knorr, leikstjórnandi GWD Minden og þýska landsliðsins segir að Aron Pálmarsson sé sín helsta fyrirmynd sem handknattleiksmaður. Þetta segir Knorr í samtali við hlaðvarpsþátt þýsku 1. deildarinnar, Hand aufs harz.
Knorr stendur á tvítugu, er tíu árum yngri en Aron. Alfreð Gíslason valdi hann í þýska landsliðið sem mætti Bosníu og Eistlandi á dögunum í undankeppni EM. Þá lék Knorr sína tvo fyrstu landsleiki og þótti standa sig vel, einkum í síðari leiknum, gegn Eistlandi á sunnudaginn.
Knorr var tímabilið 2018/2019 í herbúðum Barcelona á samningi hjá B-liði félagsins og kom eitthvað við sögu hjá aðalliðinu síðla tímabilsins gegn minni spámönnum deildarinnar.
Sumarið 2019 gekk Knorr til liðs við GWD Minden. Hjá Minden hafa á annan tug íslenskra handknattleiksmanna leikið allt frá því að Axel Axelsson samdi við félagið 1974.
Faðir Juri Knorr, Thomas Knorr, lék ríflega 80 landsleiki fyrir Þýskaland á tíunda áratugnum og eitthvað á fyrstu árum þessarar aldar. Thomas lék með Kiel og Flensburg frá 1992 til 2001 en var einnig leikmaður Bad Schwartau og HSV Hamburg. Thomas hefur verið þjálfari neðri deildarliðsins HSG Ostsee N/G frá 2014.