Handknattleikssamband Færeyja, HSF, heldur upp á 40 ára afmæli á þessu ári en það var stofnað 19. apríl 1980. Af því tilefni hefur sambandið gert fimm stuttmyndir um handknattleik í Færeyjum að fornu og nýju.
Handknattleikur var fyrst leikinn í Færeyjum á þriðja áratug síðustu aldar eða um líkt leyti og íþróttin barst til Íslands. Fyrsta handknattleiksliðið, Neistin, var stofnað 1931.
Fyrstu árin var leikið utandyra en fyrstu keppnishallirnar voru reistar fyrir um hálfri öld. Þá óx áhugi fyrir handknattleik til muna. Landsliðin fóru að taka þátt í alþjóðlegri keppni og félagsliðin styrktust.
Færeyingar fengu aðild að Alþjóða handknattleikssambandinu 1974 og sex árum síðar var C-heimsmeistaramótið haldið í Færeyjum. Upp úr því var Handknattleikssambandið stofnað.
Nú eru um 20 keppnishús fyrir handknattleik í Færeyjum. Félögin eru 13 og iðkendur um 2.600.
Hér fyrir neðan eru allir þættirnir fimm en þeir eru um þrjár mínútur að lengd hver og einn. Eins er hægt að finna þættina á youtube með því að slá inn: Handball Faroe Islands.