- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Best ef HM verður slegið af

Hinn þrautreyndi þýski landsliðsmarkvörður Johannes Bitter. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Jürgen Schweikardt, þjálfari þýska liðsins Stuttgart, segist vera á þeirri skoðun að réttast væri að hætta við heimsmeistaramót karla í handknattleik sem fram á að fara í Egyptaland í janúar. Schweikardt er afar vonsvikinn yfir að einn af hans öflugustu leikmönnum, landsliðsmarkvörðurinn Johannes Bitter, er í einangrun eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni meðan hann var við æfingar og keppni með þýska landsliðinu í síðustu viku.


„Það besta sem gæti komið fyrir þýsku deildina væri að HM yrði slegið af,“ sagði Schweikardt við þýska fjölmiðla í gær eftir að lið hans steinlá fyrir Erlangen, 34:25, í þýsku 1. deildinni í gærkvöld.

„Ef Bitter verður að fara aftur í einangrun við komuna frá HM þá væri það kjaftshögg fyrir okkur,“ sagði Schweikardt ennfremur. Stuttgart hefur fleiri landsliðsmenn á sínum snærum, þar á meðal Viggó Kristjánsson.

Fleiri sem efast


Fleiri þjálfarar og forráðamenn liða í deildinni hafa lýst yfir efasemdum hvort rétt væri að halda HM. Þar á meðal er Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og þjálfari MT Melsungen. Hann lýsti yfir efasemdum sínum í viðtali við Stöð2/vísi á dögunum.

Áfram er frestað


Þremur leikjum var aflýst í þýsku 1. deildinni í gærkvöld vegna veikra leikmanna. Hvert sambandsríki Þýskalands hefur sína sóttvarnareglur. Af þeim sökum er mismunandi eftir liðum hvort leikjum þeirra er frestað eða ekki ef einn eða fleiri leikmenn innan liða smitast.


Af fjórum leikjum sem voru á dagskrá í kvöld hefur tveimur þegar verið frestað vegna smita. Um er að ræða viðureignir Kiel og Füchse Berlin annarsvegar og Hannover Burgdorf og Göppingen hinsvegar. Einum leik í 1. deild kvenna var frestað í gær eftir að smit kom upp í herbúðum Borussia Dortmund. Næsta leik Oldenburg í 1. deild kvenna hefur einnig verið slegið á frest eftir að smits varð vart meðal leikmanna.


Þess má geta í framhjáhlaupi að Schweikardt smitaðist af kórónuveirunni í haust áður en keppnistímabilið hófst í þýsku 1. deildinni og var frá störfum um nokkurt skeið.

Ekkert hik

Ekkert bendir til að hik sé á forráðamönnum Alþjóða handknattleiksambandsins vegna HM. Forsetinn Hassan Moustafa reiknar jafnvel með rífandi góðri aðsókn á leiki mótsins og vonast jafnvel eftir að aðsókn verði ekki síðri en á HM í Þýskalandi og Danmörku fyrir tveimur árum þegar aðsóknarmet var slegið að HM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -