- Auglýsing -
„Við ætlum að selja okkur dýrt eftir tapið fyrir tveimur dögum þegar Stjörnuliðið lék frábærlega í Eyjum. Við fórum vel yfir okkar mál fyrir viðureignina í dag og tókst svo sannarlega að snúa við blaðinu,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir leikmaður ÍBV eftir að liðið jafnaði metin í rimmunni við Stjörnuna með níu marka sigri í TM-höllinni í Garðabæ í gær, 33:24.
Oddaleikur stendur þar af leiðandi fyrir dyrum í Vestmannaeyjum á þriðjudaginn klukkan 18.
„Varnarleikurinn var mikið þéttari hjá okkur í dag. Um leið batnaði markvarslan og hraðaupphlaupin skiluðu sér um leið. Þessi atriði skiluðu miklu inn í liðið,“ sagði Hanna sem skoraði þrjú mörk að þessu sinni, eitt úr vítakasti.
„Okkur tókst að gera það sem við vildum í dag. Þetta er hinsvegar bara einn stakur leikur. Ég býst við hörkuleik á þriðjudaginn í Eyjum. Við vonumst eftir jafn góðum stuðningi og í síðasta leik, þá var geggjuð stemning,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem skorar á Eyjamenn að láta sig ekki vanta á áhorfendapallana.
- Auglýsing -