- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Innsiglaði sigur á afmælisdaginn

Elliði Snær Viðarsson leikmaður Gummersbach. Mynd/Nastasja Kleinjung / VfL Gummersbach
- Auglýsing -

Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson hélt upp á afmæli sitt í dag með því að innsigla sigur Gummersbach á HSV Hamburg í þýsku 2. deildinni í handknattleik, 26:25. Elliði Snær skoraði 26. markið 26 sekúndum fyrir leikslok í Schwalbe Arena í Gummerbach.

Gestunum tókst reyndar að klóra í bakkann með 25. markinu á lokasekúndunum en það hafði ekkert að segja um það hvort liðið færi með sigur úr býtum. Elliði Snær og félagar unnu sinni fimmta sigur í deildinni í sex leikjum undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, þjálfara liðsins.

Elliði Snær skoraði fimm mörk í jafn mörgum skotum auk þess sem hann lét mikið að sér kveða í varnarleiknum.

Gummersbach hefur þar með 10 stig eins og Hamm-Westfalen og Dessauer en liðin eru í þremur efstu sætum 2. deildar. Leikurinn í dag var sá fyrsti sem Gummersbach leikur frá 25. október en mikil röskun hefur orðið á deildarkeppninni vegna kórónuveirunnar.

Leikurinn í dag var hnífjafn og spennandi lengst af. Gummersbach var marki yfir í hálfleik og var komið með þriggja marka forskot stuttu fyrir leikslok, 25:22.

Þetta var fyrsta tap HSV Hamburg í deildinni í fjórum leikjum.

Timm Schneider var markahæstur hjá Gummersbach með sjö mörk. Niklas Weller skoraði sex mörk fyrir Hamborgarliðið.

Matthias Puhle átti afar góðan leik í marki Gummersbach, var með 40% hlutfallsmarkvörslu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -