- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Torsótt en lærdómsrík leið – Herbert fagnaði með ÍR-ingum

Leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn ÍR glaðir á brúna og brá. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Það er virkilega kærkomið og um leið mikilvægt fyrir félagið að endurheimta sætið í Olísdeildinni eftir eins árs veru í Grill66-deildinni,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari ÍR, í samtali við handbolta.is í dag. ÍR vann í gær Fjölni í umspili um sæti í Olísdeildinni á næsta keppnistímabili.


ÍR hafði betur í þremur leikjum af fjórum í úrslitum umspilsins og fagnaði sigri ásamt Herbert Guðmundssyni söngvara sem lét sig ekki vanta í Dalhús af þessu tilefni.


Síðasta viðureignin var sannkölluð hörkuviðureign, lokatölur 27:25. Taugar leikmanna voru mjög spenntar og litlu mátti muna að hressilega syði upp úr.

Siggi hélt okkur á floti

„Við vorum taugaóstyrkir framan af leiknum og gerðum okkur seka um nokkuð af mistökum auk þess sem spenna var í mönnum eins og mátti örugglega búast við. Það kom hinsvegar skýrt fram af hverju við fengum Sigga [Sigurður Ingiberg Ólafsson markvörður] til félagsins síðasta sumar. Hann hélt okkur á floti framan af leiknum á meðan við vorum að vinna okkur inni í viðureignina. Þegar Siggi meiddist síðla í leiknum átti Ólafur frábæra innkomu í markið og lagði sitt lóð á vogarskálinu. Það er ekki auðvelt að koma seint inn í leiki í svona aðstæðum,“ sagði Kristinn sem var líflegur á hliðarlínunni að vanda þótt hann haldi stundum öðru fram.

Erum einfaldlega með betra lið

„Eftir því sem á leikinn leið og hann varð jafnari þá hafði ég minni áhyggjur því ég var alltaf fullviss um að við myndum vinna í jöfnum leik,“ sagði Kristinn. „Við erum einfaldlega með betra lið en Fjölnir.“

Í Olísdeild í nýju íþróttahúsi

ÍR flytur í nýtt íþróttahús í Breiðholti í sumar. Rekstrarerfiðleikar sem settu strik í reikninginn fyrir fáeinum árum eru að baki enda hefur verið unnið hörðum höndum að greiða úr þeim málum. Kristinn segir handknattleiksdeildina vera á góðum stað um þessar mundir og eftirvænting ríki fyrir næstu árum í enn betri aðstöðu. Þess vegna hafi áfanginn sem vannst í gær verið mikilvægur.

Ekki auðveld leið

„Allt hefur þetta mikið að segja fyrir okkur. Ég viðurkenni að leiðin upp í Olísdeildina á nýjan leik var erfiðari en ég hélt. Ekki síst vegna þess að allir töldu að við myndum vinna deildina auðveldlega. Það er hinsvegar ekkert sjálfgefið í þessum efnum. Mikið þarf til að halda mönnum á tánum og vera um leið með réttu blönduna af leikmönnum innan hópsins,“ sagði Kristinn.

Leikmennn og þjálfarar ÍR ásamt Herbert Guðmundssyni fagna sæti í Olísdeild karla á næsta keppnistímabili í Dalhúsum í gær. Mynd/aðsend

Kærkomin reynsla

Kristinn segir að eftir á hafi það verið afar lærdómsríkt fyrir sig og leikmennina að fara í gegnum úrslitakeppni til að komast upp á nýjan leik. Auk hans hafi fæstir leikmenn reynslu af því að taka þátt í úrslitakeppni þar sem þétt er leikið og allt er undir. Auk þess hafa margir ekki unnið neitt á sínum ferli.


„Það er hrikalega góð reynsla fólgin í að fara í gegnum svona verkefni. Þá kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir,“ sagði Kristinn en leikurinn í gær var sjötti leikur ÍR á hálfum mánuði í umspilskeppninni. Auk leikjanna fjögurra við Fjölni mætti ÍR liði Kórdrengja í tvígang í undanúrslitum umspilsins.


„Fyrir mig var frábært að fá að taka þátt í þessu,” sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR í samtali við handbolta.is í dag.


ÍR-ingar drógu ekkert af sér í fögnuðinum í Dalhúsum í gær og m.a. mætti vildarvinur liðsins, poppstjarnan Herbert Guðmundsson, á leikinn og tók að sjálfsögðu lagið í leikslok og var með á liðsmyndinni eins og sjá má hér að ofan. Herbert mætti einnig eftir síðasta leik fyrir jólaleyfi og kom mönnum í jólaskap eins og handbolti.is sagði frá.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -