- Auglýsing -
- Ungur og efnilegur handknattleiksmaður, Benedikt Marinó Herdísarson, hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna. Benedikt Marinó var í leikmannahópi Stjörnunnar í 14 leikjum í Olísdeild í vetur sem leið. Má vænta þess að hann verði oftar í eldlínunni á næsta keppnistímabili.
- Grétar Ari Guðjónsson og samherjar hans í Nice eru komnir upp í fjórða sæti frönsku 2. deildarinnar í handknattleik eftir nauman sigur á Tremblay, 28:27, á heimavelli í næst síðustu umferð deildarinnar í gærkvöld. Grétar Ari stóð í marki Nice hluta leiksins og varði fimm skot, 26%. Nice er í afar góðri stöðu fyrir lokaumferðina að vera í hópi sex efstu liðanna og taka þátt í umspili um sæti í 1. deild á næsta keppnistímabili. Í lokaumferðinni á næsta föstudag taka leikmenn Nice á móti liðsmönnum Valence sem er í 14. sæti.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar þegar lið hans Coburg tapaði fyrir VfL Lübeck-Schwartau, 37:25, í Hansenhalle, heimavelli Lübeck-Schwartau í þýsku 2. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Coburg var sjö mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 18:11. Coburg situr í 12. sæti af 20 liðum deildarinnar þegar sex leikir eru eftir.
- Rússneski landsliðsmaðurinn Timus Dibirov hefur ákveðið að taka eitt tímabil í viðbót með Vardar Skopje. Þar með lítur út fyrir að honum hafi snúist hugur en fáeinar vikur eru liðnar síðan sagt var frá því að Rússinn ætlaði sér ekki að vera áfram í Vardar eftir að hafa verið um áratug í herbúðum Norður Makedóníuliðsins.
- Auglýsing -