Bikarmeistarar Vals leika til úrslita við Fram um Íslandsmeistaratitilinn í Olísdeild kvenna í handknattleik. Íslandsmeistarar KA/Þórs eru úr leik. Valur vann fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum í dag, 30:28, í KA-heimilinu og rimmuna, 3:1, í leikjum talið.
Fyrsti úrslitaleikur Fram og Vals verður í Framhúsinu á föstudaginn og hefst klukkan 19.30.
Valur byrjaði leikinn frábærlega í KA-heimilinu í dag og var með þriggja til fimm marka forskot allt til loka hálfleiksins. KA/Þór tókst einu sinni að minnka muninn í tvö mörk, 15:13.
Í síðari hálfeik var KA/Þór áfram á eftir. Þegar 18 mínútur voru til leiksloka var munurinn kominn í eitt mark, 21:20, þegar Unnur Ómarsdóttir skoraði eftir hraðaupphlaup. Valur bætti í forskotið eftir leikhlé og hélt yfirhöndinni allt til leiksloka. Veik von vaknaði undir lokin hjá KA/Þór en hún slokknaði fljótt eftir að hraðaupphlaup á síðustu mínútu brást í stöðunni 29:27 fyrir Val.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 10/4, Ásdís Guðmundsdóttir 5, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Martha Hermannsdóttir 1/1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.
Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 8/2, 21,6%.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 8, Lovísa Thompson 7/1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 4/2, Hildigunnur Einarsdóttir 4, Morgan Marie Þorkelsdóttir 3, Mariam Eradze 3, Hulda Dís Þrastardóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 7/1, 23,3% – Andrea Gunnlaugsdóttir 1, 16,7%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.