Fyrsti úrslitaleikur Vals og ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla fer fram í kvöld í Origohöll Valsmanna. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Leikmenn beggja liða klæjar í fingurnar að hefja leik eftir nokkurt hlé sem verið hefur frá því að undanúrslitum lauk.
Valur vann Fram í tveimur leikjum í átta liða úrslitum og Selfoss í þremur leikjum í undanúrslitum. Valsmenn, sem eru ríkjandi Íslands-, bikar- og deildarmeistarar, hafa ekki tapað leik til þessa í úrslitakeppninni.
ÍBV vann Stjörnuna í tveimur viðureignum í átta liða úrslitum. Í undanúrslitum lagði ÍBV liðsmenn Hauka í fjögurra leikja rimmu, 3:1. Síðasti leikurinn fór fram í Vestmannaeyjum þriðjudaginn 10. maí.
Valur og ÍBV mættust í tveimur hörkuleikjum í undanúrslitum Olísdeildar fyrir ári. Valur hafði betur en síðari viðureignina var hnífjöfn og réðust ekki úrslitin fyrr en á síðustu sekúndu. Einar Þorsteinn Ólafsson vann boltann þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og skoraði 27. mark Valsliðsins sem tapaði þó, 29:27. Hinsvegar fór Valur áfram í úrslit á samanlögðu sigri, 55:54, í tveimur leikjum. Aðeins voru leiknir tveir leikir í hvorri undanúrslitarimmunni á síðasta ári.
Að loknum leiknum í kvöld mætast liðin á ný í Vestmannaeyjum á sunnudaginn klukkan 16. Liðið sem fyrr vinnur þrjá leiki hreppir Íslandsmeistaratitilinn.
Olísdeild karla, fyrsti úrslitaleikur karla:
Origohöllin: Valur – ÍBV, kl. 19.30 – sýndur á Stöð2sport.
Leikjadagskrá úrslitaleikjanna er finna hér.