„Ég hlakka til að sjá þessa leiki og vona um leið að liðin leiki góðan handbolta. Ég tel að Eyjamenn geti hlaupið með Valsliðinu. En sannarlega verða þeir líka að sýna skynsemi þegar tök verða á. Ég er sannfærður að leikirnir verði jafnir og að framundan sé veisla fyrir handboltann. Tvö góð lið með mjög færa þjálfara,“ segir Patrekur Jóhannesson þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, spurður út í væntanlega úrslitaleiki Vals og ÍBV. Fyrsta viðureignin verður í kvöld í Origohöll Valsara og hefst hún klukkan 19.30.
Ungir menn hafa breytt myndinni
Patrekur segir að tilkoma yngri leikmanna í ÍBV-liðinu hafi breytt því, aukið breiddina og gert það samkeppnishæfara við Val. „Elmar Erlingsson og Arnór Viðarsson hafa breytt ÍBV-liðinu í úrslitakeppninni. Þar eru á ferð ungir menn sem hafa komið sterkt inn í liðið og verið mjög ferskir. Þeir eru að því leyti til svipaðir bræðrunum hjá Val, Benedikt og Arnóri, sem hafa komið af krafti í vetur. Þeir nýttu tækifærið meðan Magnús Óli, Róbert og Agnar Smári voru í meiðslum í vetur og hafa síðan aukið breiddina í liðinu eftir að þremenningarnir komu til baka. Til viðbótar hefur Stiven sprungið út á keppnistímabilinu, frábær íþróttamaður sem á eftir verða ennþá betri þegar fram líða stundir,“ segir Patrekur sem sjálfur glímdi við ÍBV í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar og tapaði í tvígang.
Leikjadagskrá úrslita: Fimmtudagur 19. maí kl. 19.30: Valur - ÍBV. Sunnudagur 22. maí kl. 16: ÍBV - Valur. Miðvikudgur 25. maí kl. 19.30: Valur - ÍBV. Laugardagur 28. maí kl. 16: ÍBV - Valur. Mánudagur 30. maí kl. 19.30: Valur ÍBV. Vinna þarf þrjá leiki til þess að hreppa Íslandsmeistaratitilinn.
„Elmar lék afar vel gegn okkur og Arnór var frábær. Til viðbótar er ÍBV með Rúnar Kárason, Kára Kristján, Sigtrygg Daða, Dag svo ekki sé minnst á Fannar sem ef til vill er ekki klár í sóknarleikurinn en er þeim mun öflugri í varnarleiknum.
Ég tel að Eyjamenn hafi hóp til þess að hlaupa gegn Valsmönnum, enda verða þeir að gera það til að standa þeir á sporði,“ segir Patrekur.
„Valsmenn hafa sýnt það til þess að þeir hlaupa endalaust, hvort sem þeir fá á sig mörk eða ekki,“ segir Patrekur og bætir við.
Upleggið er að hlaupa, hlaupa og hlaupa
„Upplegg Valsara er að hlaupa, hlaupa og hlaupa enda er liðið í virkilega góðu standi með marga mjög góða leikmenn innan sinna raða. Það hefur lítið reynt á Valsmenn með uppstilltan sóknarleik því þeir hafa hlaupið svo mikið enda hafa þeir jafnvel skorað 15 til 20 mörk í leik eftir hraðaupphlaup og seinni bylgju.“
Patrekur segir að beiddin í leikmannahóp Vals sé mikil. Snorri Steinn þjálfari liðsins býr við þann munað að þurfa ekki að spila á frábærum leikmönnum eins og Magnúsi Óla, Róberti og Agnari alla leikina frá upphafi til enda. Fleiri leikmenn væri hægt að telja upp.
Markvarslan skiptir máli
„Markvarslan verður líka að vera góð hjá liðunum í öllum leikjum. Petar Jokanovic hefur átta góða leiki á milli hjá ÍBV. Hann og Björn Viðar verða að sýna stöðugleika. Síðan vita allir hvað Björgvin Páll getur þegar hann er stuði í marki Vals,“ segir Patrekur sem vonast til að fólk flykkist á völlinn í leikjunum.
Alltaf stemning í kringum Eyjamenn
„Það er alltaf stemning í kringum Eyjamenn. Þeir eiga ekki eftir að láta sig vanta. Framundan er veisla fyrir handboltann,“ segir Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar í samtali við handbolta.is í morgun.