Handknattleiksmarkvörðurinn Axel Hreinn Hilmisson hefur ákveðið að söðla um og ganga til liðs við FH og kveðja um leið uppeldisfélag sitt, Fjölni. Handknattleiksdeild FH greinir frá því að Axel Hreinn hafi skrifað undir tveggja ára samning við félagið.
Axel Hreinn fæddist árið 2000 og á leiki að baki með yngri landsliðum Íslands. Hann var aðalmarkmaður Fjölnis í Grill-66 deildinni en lék auk þess 19 leiki með Fjölni í Olísdeildinni tímabilið 2019-2020.
Axel Hreinn á að hlaupa í skarðið fyrir Svavar Inga Sigmundsson sem mun hafa í hyggju að taka sér frí frá handknattleiksiðkun á næsta keppnistímabili, eftir því sem handbolti.is kemst næst.
„Það er alltaf ánægjulegt þegar ungir og metnaðarfullir leikmenn ganga til liðs við FH. Við höfum fylgst vel með Axel Hreini undanfarið og þekkjum hans styrkleika. Hann mun án efa styrkja okkur til framtíðar,“ er haft eftir Ásgeiri Jónssyni formanni handknattleiksdeildar FH í tilkynningu.