- Auglýsing -
- Arnar Birkir Hálfdánsson og félagar í EHV Aue halda í veika von um að halda sæti sínu í þýsku 2. deildinni eftir að þeir lögðu Empor Rostock, 30:21, á heimavelli í gær. Arnar Birkir skoraði þrjú mörk í leiknum eins og Færeyingurinn Áki Egilsnes sem gerði garðinn frægan með KA um árabil. Sveinbjörn Pétursson, markvörður, var í leikmannahópi Aue en kom ekkert við sögu í leiknum. Með sigrinum færðist Aue upp í 19. og næst neðsta sæti og sendi TV Emsdetten niður í botnsætið. Aue á þrjá leiki og má vart misstíga sig á endasprettinum til þess að eiga einhverja von um áframhaldandi veru í 2. deild á næsta keppnistímabili.
- Tumi Steinn Rúnarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu þegar lið hans HSC 2000 Coburg tapaði á heimavelli fyrir Dessau-Roßlauer HV, 31:25. Coburg siglir lygnan sjó 13. sæti deildarinnar af 20 þátttökuliðum.
- Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði sjö mörk í næst síðasta leik sínum með Gjerpen HK Skien í gær þegar liðið vann Tertnes, 30:27, á heimavelli í síðari leik liðanna í umspili um sæti í norsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili. Framlengja varð viðureignina til þess að knýja fram hrein úrslit. Hvort lið hefur þar með einn vinning og mætast þau í oddaleik á miðvikudaginn á heimavelli Tertnes.
- Mattias Zachrisson, fyrrverandi landsliðsmaður Svía í handknattleik og núverandi aðstoðarþjálfari sænska úrvalsdeildarliðsins Guif hefur verið dæmdur í hálf árs keppnisbann eftir að upp komst að hann hafði veðjað á leik með eigin liði á veðmálasíðu. Zachrisson veðjaði reyndar ekki gegn eigin liði heldur með að það ynni viðkomandi leik. Engu að síður er ljóst að hann hefur brotið reglur sem gilda í Svíþjóð og verður að súpa seyðið að því. Zachrisson lék lengi í Þýskalandi en hætti 2020 vegna þrálátra meiðsla, aðeins 29 ára gamall.
- Svartfellingurinn Dragan Adžić sem tók við þjálfun kvennalandsliðs Slóveníu fyrir um ári hefur verið ráðinn þjálfari meistaraliðsins Krim Ljubljana í Slóveníu til næstu tveggja ára. Adžić mun þjálfara liðið samhliða störfum sínum fyrir landsliðið en framundan er m.a. þátttaka á Evrópumótinu sem fram fer í nóvember í Slóveníu, Svartfjallalandi og Norður Makedóníu. Adžić þjálfaði Buducnost í Svartfjallalandi í áratug með frábærum árangri en á þeim tíma varð það eitt allra fremsta félagslið heims í kvennahandknattleik.
- Auglýsing -