Stórleikur Ólafs Andrésar Guðmundssonar fyrir IFK Kristianstad dugði liðinu ekki í dag þegar það fékk heimsókn af leikmönnum Skövde, væntanlegum samherjum Bjarna Ófeigs Valdimarssonar. Ólafur skoraði átta mörk og átti sex stoðsendingar þegar Kristianstad tapaði á heimavelli, 24:23. Skövde komst þar með í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar. Liðið hefur 17 stig að loknum 12 leikjum. Kristianstad er einu stigi á eftir en á leik til góða á Skövde eins og Ystads IF sem er í öðru sæti.
Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar fyrir Kristianstad-liðið.
Aron Dagur Pálsson og samherjar í Alingsås töpuðu öðrum leik sínum í röð í sænsku úrvalsdeildinni í dag þegar þeir sóttu HK Varenberg heim, 30:28.
Alingsås var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13, og náði fjögurra marka forskoti snemma í síðari hálfleik. Eftir það bitu heimamenn frá sér og það sem eftir var leiktímans var viðureignin afar spennandi.
Aron Dagur skoraði fjögur mörk og átti sex stoðsendingar en piltur hefur leikið vel með Alingsås á keppnistímabilinu. Alingsås er í fimmta sæti með 15 stig eftir 12 leiki.
„Þetta hefur ekki verið nógu gott hjá okkur í síðustu tveimur leikjum. Auðvitað hafa verið margir margir leikir undanfarið á skömmum tíma. Meiðslin í hópnum hjálpa ekki til en við eigum samt að vera búnir að gera talsvert betur í síðustu tveimur leikjum en raun ber vitni um,“ sagði Aron Dagur við handbolta.is í dag.
„Það er bara næsti leikur og hann verður á móti Magdeburg í Evrópudeildinni á þriðjudaginn. Þannig að það þýðir ekkert að dvelja of lengi við þennan leik,“ sagði Aron Dagur Pálsson ákveðinn.