- Auglýsing -
Landsliðskonan í handknatteik, Lovísa Thompson, hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið Ringkøbing Håndbold frá og með næsta keppnistímabili. Hún verður þar með samherji Elínar Jónu Þorsteinsdóttur landsliðsmarkvarðar. Þær voru eitt sinn samherjar hjá Gróttu.
Ringkøbing Håndbold er með bækistöðvar á Jótlandi. Lið félagsins vann sér sæti í úrvalsdeildinni fyrir ári og tókst að halda sæti sínu í deildinni í vetur eftir mikla keppni á endasprettinum.
Fram kemur í tilkynningu frá Val að gerður hafi verið lánasamningur við Ringkøbing Håndbold um Lovísu sem átti nokkuð eftir af samningstíma sínum hjá Hlíðarendafélaginu.
Lovísa gekk til liðs við Val fyrir fjórum árum frá Gróttu og hefur á þeim tíma orðið Íslands-, og bikarmeistari. Hún er fimmti leikmaður kvennaliðs Vals sem á síðustu þremur árum fer frá liðinu í atvinnumennsku. Hinar eru Ásdís Þóra Ágústsdóttir, Díana Dögg Magnúsdóttir, Lilja Ágústsdóttir og Sandra Erlingsdóttir.
Lovísa á að baki 29 landsleiki sem hún hefur skorað í 69 mörk.
Fram kemur m.a. í tilkynningu á heimasíðu Ringkøbing Håndbold að Lovísa leiki áfram í peysu með númerinu 35 á bakinu eins og henni er kært.
- Auglýsing -