Ekkert verður af því að Orri Freyr Gíslason leiki með Kadetten Schaffhausen í Sviss eins og til stóð. Það staðfestir Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari liðsins við handbolta.is. Þegar til kastanna kom fékk Orri Freyr ekki leikheimild í Sviss að sögn Aðalsteins.
Til stóð að Orri Freyr tæki fram handknattleiksskóna og hlypi undir bagga hjá Kadetten í úrslitakeppninni um meistaratitilinn í Sviss. Hafði hann æft með liðinu um tíma og var þess albúinn að leggjast á árarnar þegar babb kom í bátinn. Orri Freyr rifaði seglin fyrir þremur árum eftir að hafa verið í stóru hlutverki hjá Val um árabil.
Sér reglur í Sviss
Almennt er lokað fyrir félagaskipti í evrópskum handknattleik þegar svo langt er komið fram á keppnistímabilið. Víðast hvar er félögum þó heimilt að semja við leikmenn sem eru án samnings, eins og var í tilfelli Orra Freys.
Kom félaginu í opna skjöldu
„Því miður er sér regla hér í Sviss sem heimilar ekki félagaskipti fyrir utan þann tíma sem félagsskiptaglugginn er opinn. Skiptir þá engu þótt menn séu samningslausir. Þetta kom félaginu í opna sköldu enda hafði ekki reynt á þessa reglu áður í Sviss,“ sagði Aðalsteinn við handbolta.is í morgun.
Miður að svona fór
„Það er miður að svona fór því Orri var kominn vel af stað og hefði hjálpað okkur mikið,” sagði Aðalsteinn en talsvert hefur verið um meiðsli í herbúðum Kadetten eftir mikið álag á leiktímabilinu.
Auk stífrar keppni í Sviss tók liðið þátt í Evrópudeildinni á keppnistímabilinu og náði alla leið í átta liða úrslit hvar það tapaði fyrir Wisla Plock sem vann bronsverðlaun í keppninni á sunnudaginn.
Kadetten leikur til úrslita við ríkjandi meistara Pfadi Winterthur og verður fyrsta viðureign liðanna í Schaffhausen á fimmtudaginn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að verða meistari.