„Í fyrsta sinn á stórmóti síðan á HM 2017 sjáum við fram á að hafa nær alla okkar bestu leikmenn tilbúna í verkefnið,“ sagði Þórir Heirgeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í samtali við handbolta.is. Þótt enn hafi ekki verið staðfest að Danir haldi EM kvenna, sem á að hefjast 3. desember, þá kemur norska landsliðið saman í Kolding á Jótlandi í dag og hefur formlegan undirbúning fyrir mótið.
Þórir segir að eins og endranær þá ríki eftirvænting fyrir mótinu í sínum huga. „Nú höfum við okkar sterkasta lið með á mótið, eða það er útlit fyrir það á þessu stigi málsins,“ sagði Þórir.
Vantaði átta á HM fyrir ári
„Á HM í fyrra vantaði okkur átta leikmenn og fimm lykilmenn voru úti á EM fyrir tveimur árum. Gangi allt upp þá er það aðeins markvörðurinn Katrine Lunde sem vantar í hópinn af okkar allra bestu handboltakonum. Lunde er barnshafandi,“ segir Þórir og bætir við að þótt liðið sér sterkt er ekki þar með sagt að liðið vinni sjálfkrafa til verðlauna.
Ekkert fast í hendi
„Það er ekkert öruggt þótt við verðum með okkar besta lið en vissulega eykur það möguleika okkar á að ná markmiðum. Stefnan er alltaf sú sama. Það er á stefnuskrá sambandsins að bæði landsliðin, kvenna og karla, eiga að leika um verðlaun á stórmótum. Þá þarf maður að komast í undanúrslit og þangað stefnum við.
Leikmenn hafa sama metnað og væntingar og allir aðrir í kringum okkur. Væntingarnar eru miklar en við eru vön þeim. Þær fylgja þessu,“ segir Þórir og bætir við að miklar væntingar og kröfur sem gerðar eru til landsliðsins séu ein helsta ástæðan fyrir að hann heldur ótrauður áfram í starfi landsliðsþjálfara.
Betra að hafa væntingar
„Væntingarnar halda mér á tánum og drífa mig áfram. Ég væri ekki í þessu ef metnaðurinn væri ekki svona mikill. Það er betra að fara með miklar væntingar og kröfur inn í hvert mót en hafa þær ekki. Ef kröfurnar væru ekki svona miklar þá væri áhuginn ekki sá sami hjá mér og leikmönnum liðsins eða á meðal norsku þjóðarinnar. Það er á hreinu,“ sagði Þórir.
Vantaði nokkuð uppá
„Væntingarnar voru kannski of miklar á HM fyrir ári síðan af því að það vantaði átta sterka leikmenn í liðið. Þá var til of mikils mælst að við gætum unnið gullverðlaun á mótinu með þann reynslulitla hóp sem við vorum með. Enda kom það á daginn þegar inn í undanúrslit var komið að okkur vantaði nokkuð upp á.“
Þórir segir norska kvennalandsliðið vera borið upp af leikmönnum sem fæddir eru í kringum 1990. Næsti árgangur, leikmenn fæddir frá 1994 til 1999 eru jafnt og þétt að bætast við. „Ég geri mér vonir um að geta endurnýjað liðið jafnt og þétt eftir þörfum á næstu árum og komast hjá því að þurfa að gera kynslóðaskipti yfir nótt. Mér sýnist það eiga að takast.“
Lykillinn að leiðinni
Spurður hvort alltaf sér nægur efniviður fyrir hendi í norskum handknattleik segir Þórir svo vera. Hinsvegar sé alltaf uppi hin sígilda spurning í Noregi eins og á Íslandi og fleiri löndum. Hún er sú hvernig á að brjótast upp úr því að vera efnilegir til þess að verða frábærir alþjóðlegir handknattleiksmenn. „Það hefur ekkert með fjöldan að gera í sjálfu sér. Ferðalagið frá því að vera efnilegur og yfir í að vera toppklassa leikmaður á alþjóðavísu er undir hverjum og einum komin. Sú ferð er ekki alltaf greið eftir beinum og breiðum vegi. Það spilar margt inn í leitina að lyklinum að leiðinni frá því að vera efnilegur yfir í hópi þeirra allra bestu.“
Skiptir ekki öllu máli
Sem fyrr segir þá kemur norska landsliðið saman í Kolding í dag. Þá tekur við skimun leikmanna og starfsmanna landsliðsins fyrir kórónuveirunni áður en lengra verður haldið. „Vonandi komast allir í gegnum skimun. Þá ættum við að geta komið saman á æfingu seinni partinn á þriðjudaginn.
Það var sárt fyrir Þrándheim þegar hætt var við að leika þar vegna þess að fólk í Þrándheimi hafði lagt mikið í sölurnar til þess að halda keppnina. En úr því sem kom er þá breytir það ekki miklu fyrir okkur, leikmenn og þjálfara, hvort leikið er í tómri íþróttahöll í Þrándheimi eða Kolding,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í samtali við handbolta.is.