Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, og þjálfari þýska liðsins MT Melsungen losnar úr 14 daga sóttkví frá og með morgundeginum. Sama á við alla hans leikmenn, þar á meðal íslenska landsliðsmanninn Arnar Frey Arnarsson.
Smit kom upp í herbúðum MT Melsungen hjá þýska landsliðsmanninum Finn Lemke eftir að hann sneri til baka eftir að hafa tekið þátt í tveimur leikjum með landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins í fyrri hluta mánaðarins.
Til stendur að MT Melsungen fái lið Bergischer HC í heimsókn á fimmtudagskvöld en með liðinu leika Arnór Þór Gunnarsson og Ragnar Jóhannsson. Guðmundur Þórður sagði í skilaboðum til handbolta.is um hádegisbil að vonir standi til að leikurinn færist yfir á helgina. Það hefur þó alls ekki verið staðfest.