Elín Klara Þorkelsdóttir var valin efnilegasti leikmaður Olísdeildar kvenna í verðlaunahófi HSÍ á dögunum. Valið kom fáum á óvart sem fylgst hafa með kvennahandknattleik síðustu misseri. Elín Klara hefur jafnt og þétt orðið burðarás í liði Hauka í Olísdeildinni auk þess að vera nánast yfirburðaleikmaður í 3. aldursflokki. Þess utan hefur Elín Klara verið í afar stóru hlutverki í U17/U18 landsliðinu síðasta árið. Fullvíst má telja að hún verði á meðal leikmanna íslenska landsliðsins sem tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer í Skopje í Norður Makedóníu í lok júlí og í byrjun ágúst í sumar.
„Það væri draumur í framtíðinni að fá tækifæri til þess að leika í bestu deildum heims og einnig að komast í A-landsliðið,“ sagði Elín Klara þegar handbolti.is hitti hana í verðlaunahófi HSÍ fyrir helgina og spurði hana um framtíðardrauma á handknattleiksvellinum. Elín Klara er aðeins 17 ára gömul, verður 18 ára í september.
Eitt skref í einu
„Ég vil hinsvegar taka lítil skref í einu og sjá til hvað gerist. Nú langar mig bara að standa mig með Haukum í Olísdeildinni, njóta þess að spila og bæta mig og klára framhaldsskólann,“ sagði Elín Klara ennfremur.
Valdi á milli greina
Ekki er langt síðan Elín Klara ákvað að veðja á handknattleik eftir að hafa æft jafnhliða handbolta og fótbolta. „Ég byrjaði að æfa bæði handbolta og fótbolta þegar ég var í fjórða bekk og var í báðum greinum lengi. Síðan kom að því að ég varð að gera upp hug minn og veðja á aðra hvora greinina. Valið var erfitt en í fyrra valdi ég handboltann. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér þá varð handboltinn ofan á, sennilega vegna þess að mér þykir hann skemmtilegri. Hann er einhvern veginn meira fyrir mig,“ sagði Elín Klara sem þótti ekkert síðra efni í góða fótboltakonu.
Engin pressa
„Það er mikið um handbolta í fjölskyldunni. Pabbi var í handboltanum og bróðir minn [Orri Freyr Þorkelsson, landsliðsmaður og leikmaður Elverum] er líka á fullu og fleiri. Ég fann aldrei fyrir neinni pressu að velja handboltann frekar en annað. Fyrst og fremst átti ég bara að gera það sem mig langað til. Ég er viss um að ég hafi valið rétt,“ sagði Elín Klara kankvís.
Æfði aukalega
Elín Klara segist hafa bætt í æfingarnar á síðasta sumri. Lyft meira en áður en einnig hlaupið. „Ég tók aukakaæfingar í gegnum allt tímabilið og mér finnst það hafa skilað sér.“
Annasamt ár
Undanfarið ár hefur verið mjög annasamt hjá Elínu Klöru og fleiri stöllum hennar á líku reki. Síðasta sumar fór í undirbúning og þátttöku í B-hluta Evrópumótsins sem fram fór í Litáen. Í október og nóvember voru fleiri leikir hjá U18 ára landsliðinu, m.a. í Danmörku og forkeppni fyrir heimsmeistaramótið í Serbíu í nóvember. Auk þess leikir í Olísdeildinni með Haukum og einnig leikir með þriðja flokki með Haukum.
Slær ekki slöku við
„Það hefur verið mikið að gera síðasta árið hjá mér. En einhvernveginn tókst mér að púsla þessu öllu saman. Ég fékk góðan tíma í júní fyrra áður en við byrjuðum að æfa fyrir EM. Í lok nýliðins tímabils þá féllum við í Haukum út eftir fyrsta umferð úrslitakeppninnar. Þá gafst tími til þess að kasta mæðinni og búa sig aðeins undir næsta tímabil,“ sagði Elín Klara sem slær heldur ekki slöku við í náminu. Hún er á náttúrufræðibraut og á afrekssviði.
Ár eftir í Flensborg
„Mér hefur gengið nokkuð vel að halda áætlun í náminu samhliða handboltanum auk þess sem mér er sýndur mikill skilningur þegar nóg er að gera. Ég á eftir ár í Flensborg. Eftir það verður að koma í ljós hvert verður næsta skref hjá mér.“
Framundan er annasamt sumar með undirbúningi fyrir HM sem fram fer í lok júlí og í byrjun ágúst. Elín Klara segir það hafa verið geggjaðar fréttir að fá á dögunum þegar landsliðinu var boðið að taka þátt í HM eftir að landslið hættu við þátttöku.
Frábær hópur
„Við ætlum að æfa vel í sumar og mæta grimmar á heimsmeistaramótið og standa okkur vel. Við stelpurnar eru mjög spenntar enda eru ekki margar sem fá tækifæri til þess að taka þátt í heimsmeistaramóti í handbolta. Hópurinn er frábær. Ég er viss um að við getum gert góða hluti á mótinu ef við æfum vel í sumar. Möguleikinn að ná langt er fyrir hendi,“ sagði dugnaðarforkurinn Elín Klara Þorkelsdóttir sem handboltaáhugafólk á örugglega eftir að heyra og sjá mikið af á næstu árum.