- Auglýsing -
- Næst stærsta vika* handbolta.is er að baki. Aðeins einu sinni í nærri tveggja ára sögu handbolta.is hafa fleiri heimsótt vefinn á einni viku en í þeirra síðustu. Aðeins tvisvar áður hafa flettingar verið fleiri en í nýliðinni viku. Þökkum við lesendum innilega fyrir. Án þeirra væri handbolti.is ekki á þessum stað.
- Sem dæmi má taka að lestur og flettingar eru tvöfalt fleiri en á sama tíma og í fyrra. Þá stóð úrslitakeppni Olísdeildanna yfir.
- Nú er keppni lokið á Íslandsmótunum hér heima og sumir jafnvel undrandi á að vefnum hafi ekki verið nánast lokað og eini starfsmaðurinn lagstur í sólbað, kartöflurækt eða sjóróðra næstu þrjá mánuði.
- Handbolti.is hefur verið uppfærður hvern einasta dag frá þeim fyrsta. Birtar fréttir nálgast átta þúsund. Engin breyting verður á sumar þótt hljóðlátara sé í íþróttasölunum. Enda er alltaf af einhverju að taka þótt kappleikjum hafi fækkað. Mörg landsliðsverkefni eru t.d. framundan í sumar hjá unglingalandsliðum karla og kvenna, svo dæmi séu nefnd.
- Þrátt fyrir vaxandi lestur eru blika á lofti í rekstri handbolta.is. Tekjur af auglýsingum hafa því miður lækkað í öfugu hlutfalli við fjölgun lesenda og voru tekjurnar þó ekki nægar fyrir. Allt þetta ár hefur verið basl og gangi áætlanir upp stefnir í a.m.k. fjórðungslækkun verði á tekjum árið 2022 samanborið við 2021.
- Svo er komið að handbolti.is kemur víða að lokuðum dyrum og því m.a. borið við að ekki sé leikinn handbolti sumrin. Auglýsingastofur hafa nánast ekki áhuga á smávefum eins og handbolta.is. Við fyrirtæki íþróttahreyfingarinnar er tilgangslaust að tala. Svo mætti lengi telja.
- Í júní auglýsa fjórir á vef handbolta.is. Olís, Handknattleikssamband Íslands, Jakosport á Íslandi og Björgvin Þór Rúnarsson löggiltur fasteignasali. Öll hafa staðið þétt við bakið á handbolta.is frá fyrsta degi og gert að verkum að hægt hefur verið að standa straum að þeim lágmarksútgjöldum vegna kaupa á þjónustu sem vefnum er nauðsyn á til að tóra. Seint verður þeim að fullu þakkað. Viti lesendur handbolta.is um fleiri góða bakhjarla sem geta lagt vefnum lið fyrir utan þá fjóra sem að framan greinir mega þeir gjarnan hafa samband við neðanritaðann.
- Einnig styðja nokkrir einstaklingar við bakið handbolta.is með mánaðalegum stuðningi eða endrum og sinnum þegar tök eru á. Þeim er einnig þakkað innilega fyrir enda langt í frá að getað talist sjálfsagt. Flestir eiga nóg með sig og sína.
- Fleiri hafa lagt hönd á plóginn hjá handbolta.is en í besta falli fengið fátæklegar þakkir frá neðanrituðum. Má þar m.a. nefna ljósmyndarana Hafliða Breiðfjörð, Jóa Long, Egil Bjarna Friðjónsson og Eyjólf Garðarsson, mínir gömlu metorarar Sigmundur Ó. Steinarsson og Skapti Hallgrímsson (Akureyri.net), auk Jóhannesar Lange og Daníels Rúnarssonar hjá Kasmír veflausnum. Er þá aðeins örfárra velgjörðarmanna getið.
- Nýrra leiða verður leitað að komandi dögum og vikum og þess freistað að ná inn tekjum til að halda vefnum áfram úti. Eins og sagði í pistli neðanritaðs um síðustu áramót, þá verður staðið á meðan stætt er. Frá ársbyjun hefur hallað undan fæti.
- Skyndilausnir eru ekki fyrir hendi í þessu efnum fremur en mörgum öðrum. Hugsanlegur ríkisstyrkur með haustinu er enn sem komið er hillingin ein.
- Um þessar mundir eru tvö ár síðan neðanritaður og Kristín B. Reynisdóttir, sambýliskona, stoð og stytta, tóku ákvörðun að ráðast í að verða sér út um lénið handbolti.is og opna handboltavef sem færi í loftið eigi síðar en í byrjun september 2020.
- Frá upphafi gerðum við okkur grein fyrir að reksturinn yrði barningur. Ekki væri hægt að ganga að einhverju gefnu. Heimsfaraldur stóð yfir og íbúar landsins biðu eftir öðru en vefsíðu um handbolta. Viðtökur lesenda á síðustu nærri tveimur árum hefur farið fram úr vonum og vaxið jafnt og þétt. Því miður hefur sú staðreynd ekki nægt ein og sér hvað svo sem síðar verður.
Ívar Benediktsson, [email protected]
*)Á ritstjórn handbolta.is hefst vikan á fimmtudegi. Ástæðan er sú að vefurinn fór í loftið á fimmtudaginn 3. september 2020.
- Auglýsing -